• fim. 29. okt. 2020
  • Landslið

Brandenburg hlýtur hin virtu alþjóðlegu Clio verðlaun

Auglýsingastofan Brandenburg hreppti hin virtu Clio verðlaun fyrir nýja ásýnd (brand identity) íslensku landsliðanna í knattspyrnu, en verkefnið vann stofan fyrir Knattspyrnusamband Íslands.  Verkefni Brandenburgar fyrir KSÍ fékk verðlaun í stórum flokki íþróttatengdra verkefna (Clio Sports Winners) ásamt Nike, Budweiser, ESPN og Adidas. Þess má geta að ásýnd íslensku landsliðanna varð hlutskarpari en stórliðið Philadelphia 76ers í sínum flokki.

Hrafn Gunnarsson, einn eigenda og hugmynda- og hönnunarstjóri Brandenburgar, er að vonum himinlifandi. „Þetta er dálítið eins og að fá Grammy-verðlaunin í faginu. Ferlið var langt og strangt og talsverð áskorun en á sama tíma mjög gefandi og lærdómsríkt. Svo erum við auðvitað afar þakklát fyrir það traust sem KSÍ hefur sýnt okkur. Dálítið eins og í fótboltanum, liðsheildin skilaði þessu alla leið.“

Stefán Sveinn Gunnarsson, markaðsstjóri KSÍ, tekur í sama streng: “Við erum auðvitað mjög ánægð með þessa viðurkenningu. Merkið sjálft hefur fengið frábærar viðtökur, hérlendis jafnt sem erlendis, og var auðvitað toppurinn á þeim ísjaka sem heildarendurskoðun vörumerkja KSÍ er.”

Clio verðlaunin, sem stofnuð voru 1959, eru með þeim virtustu á alþjóðavísu og keppa þar stærstu markaðs- og auglýsingastofur hvaðanæva að fyrir heimsþekkt vörumerki. Clio verðlaunin hljóta þau verk sem dómnefnd telur eftirtektarverð, faglega leyst og líkleg til að verða öðrum hvatning í faginu.

Umfjöllun Clio Sports

Allt um nýja ásýnd KSÍ og landsliðanna

Vefur Brandenburg