Ísland mætir Svíþjóð á þriðjudag
Mynd - Guðmundur Svansson
Ísland og Svíþjóð mætast í undankeppni EM 2022 á þriðjudag.
Leikurinn fer fram á Gamla Ullevi í Gautaborg og hefst hann kl. 17:30 að íslenskum tíma. Bein útsending verður frá honum á RÚV.
Svíþjóð er í efsta sæti riðilsins með 16 stig eftir sex leiki á meðan Ísland er í öðru sæti með 13 stig eftir fimm leiki. Liðin mættust þriðjudaginn 22. september og endaði sá leikur með 1-1 jafntefli. Elín Metta Jensen skoraði mark Íslands í leiknum.
Þetta verður í sautjánda skiptið sem þjóðirnar mætast. Ísland hefur unnið tvo leiki, tveir hafa endað með jafntefli og tólf með sigri Svíþjóðar.
Liðið sem endar í efsta sæti riðilsins og þau þrjú lið sem verða með bestan árangur í öðru sæti komast beint í lokakeppnina, en hún verður haldin á Englandi 2022. Hin sex liðin sem enda í öðru sæti síns riðils mætast í umspili um þrjú laus sæti í lokakeppninni.