Aukafundur stjórnar KSÍ - 20. október 2020
Aukafundur stjórnar KSÍ (án númers)
Þriðjudagur 20. október 2020 kl. 12:00 - fjarfundur í gegnum Teams
Mætt
Aðalmenn í stjórn: Guðni Bergsson formaður, Gísli Gíslason varaformaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Ásgeir Ásgeirsson, Haraldur Haraldsson, Ingi Sigurðsson, Magnús Gylfason, Ragnhildur Skúladóttir, Valgeir Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson.
Aðrir stjórnarmenn (varamenn í stjórn): Guðjón Bjarni Hálfdánarson og Þóroddur Hjaltalín.
Fulltrúar landshluta: Tómas Þóroddsson (Suðurland), Jakob Skúlason (Vesturland), Bjarni Ólafur Birkisson (Austurland) og Björn Friðþjófsson (Norðurland).
Fjarverandi
Jóhann K Torfason varamaður í stjórn.
Aðrir fundarmenn
Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ sem ritaði fundargerð.
------
Dagskrá:
1. Reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsótta sem tók gildi 20. október 2020. Framhald af umræðu á stjórnarfundi 19. október.
a. Formaður KSÍ, Guðni Bergsson, opnaði fundinn og reifaði málið. Stjórn hefur þegar fjallað ítarlega um málið, sem og mótanefnd KSÍ og einnig hefur verið haft samráð við ÍTF. Stjórn ræddi um þær misvísandi upplýsingar sem hafa borist um lokun íþróttamannvirkja og önnur atriði sem fram hafa komið síðan á fundi stjórnar í gær. Nauðsynlegt er að fá skýrari upplýsingar um stöðuna.
b. Á stjórnarfundi í gær var meirihluti stjórnar sammála því að halda áfram deildakeppnum og gera allt sem hægt er að ljúka keppni í einstökum deildum og er sú afstaða stjórnar óbreytt. Stjórn KSÍ samþykkti eftirfarandi bókun:
Stjórn KSÍ hefur farið ítarlega yfir stöðu Íslandsmóta í knattspyrnu og bikarkeppni karla og kvenna vegna takmarkana og banns við æfingum og keppni samkvæmt bráðabirgðaákvæði reglugerðar heilbrigðisráðuneytisins. Þá hefur mótanefnd vaktað þróun mála, fjallað um stöðuna og verið stjórninni til ráðgjafar. Á grundvelli ítarlegrar umræðu samþykkir stjórn KSÍ að mótum meistaraflokka verði haldið áfram í öllum deildum að því tilskyldu að takmarkanir á æfingum og keppni verði afnumdar eigi síðar en 3. nóvember nk. Í því skyni að draga úr umfangi þeirra leikja sem óleiknir eru samþykkir stjórnin að keppni skuli hætt í öllum yngri flokkum og í eldri flokkum (40+ og 50+). Stjórnin felur mótanefnd að gefa út niðurröðun þeirra leikja sem fyrirhugað er að leika í nóvember.
Stjórn KSÍ hefur áður ályktað um að leitað verði allra leiða til að ljúka mótum í meistaraflokki samkvæmt mótaskrá auk þess sem stjórn ÍTF hefur ályktað á sama veg. Þá hefur verið rætt við fulltrúa fjölmargra félaga og þar hafa komið fram mismunandi sjónarmið.
Ljóst er að þau áform KSÍ að halda áfram keppni ef kostur er, eru háð óvissu og áformin lögð fram í þeirri von að úr því ástandi rætist sem nú blasir við. Með hliðsjón af því og þróun mála næstu daga mun stjórn KSÍ taka ákvörðun um Mjólkurbikarkeppni karla og kvenna eins fljótt og auðið er.
Standi reglur yfirvalda ekki vegi fyrir því að unnt verði að hefja keppni að nýju í byrjun nóvember munu KSÍ og aðildarfélögin vinna samkvæmt öllum reglum sem settar verða af heilbrigðisyfirvöldum og kappkosta um að fylgja áfram ítrustu sóttvarnarúrræðum.
---
Ingi Sigurðsson leggur fram svohljóðandi bókun:
Ég styð ekki afgreiðslu stjórnar KSÍ í ljósi þeirrar stöðu sem er uppi í Covid-19 faraldrinum og einnig núverandi stöðu og mögulegt framhald mótamála. Það er uppi veruleg óvissa um hvað tekur við í sóttvarnaraðgerðum yfirvalda þegar núverandi aðgerðum lýkur. Einnig er veruleg óvissa uppi með það hvort og þá hvernig mögulegt verður að ljúka mótahaldi allra deilda með ásættanlegum hætti, og þar koma margir þættir inn. KSÍ og aðildarfélög sambandsins hafa náð að komast eins langt með mótahald og raun ber vitni þrátt fyrir verulegar áskoranir á tímabilinu. Það er vel og þar sem fyrir liggur að engir leikir verða leiknir fyrr en í allra fyrsta lagi vel inn í nóvember þá er uppi veruleg óvissa hvað varðar mótahald á þessum tíma ársins, nokkuð sem ekki þekkist hérlendis varðandi lengd keppnistímabils. Þá verða einnig liðnar rúmar 4 vikur frá því öll lið höfðu tök á að æfa við sem mest eðlilegar aðstæður og því allar aðstæður nú ólíkar varðandi æfingar og keppni komandi fram á þennan tíma ársins. Að mínu mati eiga almannahagsmunir og almenn heilsa að vega verulega stóran þátt í þeirri ákvörðun sem þarf að taka í ljósi gildandi ástands í Covid-19 faraldrinum.
Ég er hins vegar sammála því að í dag komi fram ákvörðun stjórnar KSÍ varðandi framhaldið þar sem reglugerð ráðherra er komin fram, því það er mikilvægt að aðildarfélög sambandsins séu ekki lengur en þörf krefur í óvissu um framhald mótamála.
Fleira var ekki á dagskrá og var fundi slitið kl. 12.50.