Ný reglugerð um takmörkun á samkomum tekur gildi 20. október
Ný reglugerð heilbrigðisráðuneytisins um takmörkun á samkomu hefur verið birt. Tekur hún gildi 20. október og gildir til 10. nóvember nk. Á vef Stjórnarráðsins er vakin sérstök athygli á 5. gr. reglugerðarinnar varðandi útfærslu á nálægðartakmörkun í íþróttum o.fl. og bráðabirgðaákvæði reglugerðarinnar sem kveður á um strangari takmarkanir á höfuðborgarsvæðinu en gilda á landsvísu.
Sérstakt bráðabirgðaákvæði er í gildi til 3. nóvember sem á við um höfuðborgarsvæðið. Samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu er íþróttastarf á vegum aðildarfélaga ÍSÍ sem krefst snertingar eða hætta er á snertingu óheimil. Ráðherra getur veitt undanþágu frá banninu fyrir einstaka viðburði, svo sem vegna alþjóðlegra keppnisleikja hér á landi, enda sé gætt fyllstu sóttvarnarráðstafana að öðru leyti.
Af vef Stjórnarráðsins:
Íþróttir og keppnir utan höfuðborgarsvæðisins:
- Þrátt fyrir 2 metra nálægðartakmörk eru snertingar heimilar milli íþróttafólks á æfingum og í keppnum á vegum Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), en virða skal 2 metra regluna í búningsklefum og á öðrum svæðum utan keppni og æfinga. Þrátt fyrir 20 manna fjöldatakmörk er allt að 50 einstaklingum heimilt að koma saman á æfingum og í keppnum á vegum ÍSÍ. Óheimilt er að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum.
- Íþrótta og heilsuræktarstarfsemi: Heimilt er með skilyrðum að standa fyrir og stunda íþrótta- og heilsuræktarstarfsemi ef um er að ræða skipulagða hóptíma þar sem allir þátttakendur eru skráðir. Við þessar aðstæður er skylt að virða 2 metra regluna, þátttakendur mega ekki skiptast á búnaði meðan á tíma stendur og allur búnaður skal sótthreinsaður á milli tíma. Sameiginleg notkun á búnaði sem er gólf- loft- eða veggfastur, s.s. á heilsuræktarstöðvum, er óheimil.
Höfuðborgarsvæðið
- Íþrótta og heilsuræktarstarfsemi: Heimilt er með skilyrðum að standa fyrir og stunda íþrótta- og heilsuræktarstarfsemi ef um er að ræða skipulagða hóptíma þar sem allir þátttakendur eru skráðir. Við þessar aðstæður er skylt að virða 2 metra regluna, þátttakendur mega ekki skiptast á búnaði meðan á tíma stendur og allur búnaður skal sótthreinsaður á milli tíma. Sameiginleg notkun á búnaði sem er gólf- loft- eða veggfastur, s.s. á heilsuræktarstöðvum, er óheimil.
- Heimildir fyrir íþróttastarfi, æfinga og keppna á vegum ÍSÍ gilda ekki á höfuðborgarsvæðinu.
- Íþrótta- æskulýðs- og tómstundastarf barna á leik- og grunnskólaaldri, þar með talið skólasund, sem krefst meiri snertingar og frekari blöndunar hópa en í skólastarfi, er óheimilt á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Reykjavík, á Seltjarnarnesi, í Mosfellsbæ, Kjósarhreppi, Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi.