Njarðvík sektuð vegna ummæla þjálfara
Á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ 6. október var tekin fyrir greinargerð sem framkvæmdastjóri KSÍ sendi til nefndarinnar þann 30. september, í samræmi við 21. gr. reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál.
Fram kemur í greinargerð framkvæmdastjóra að málið varði opinber ummæli sem þjálfari mfl. karla hjá Njarðvík, Mikael Nikulásson, viðhafði í hlaðvarpsþættinum „Helgaruppgjör Dr. Football – Loksins ákvörðun gegn KR-ingum – Gaui Siglir Ólsurum í örugga höfn“, frá 28. september. Var um að ræða opinber ummæli sem eru ósæmileg að mati framkvæmdastjóra og með þeim hafi álit almennings á íþróttinni og starf knattspyrnuhreyfingarinnar rýrt.
Ákvað aga- og úrskurðarnefnd KSÍ á fundi sínum 8. október að sekta knattspyrnudeild Njarðvíkur um kr. 50.000,- vegna framangreindra opinberra ummæla þjálfara mfl. karla hjá félaginu.