KR sektað vegna ummæla þjálfara
Á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ 6. október var tekin fyrir greinargerð sem framkvæmdastjóri KSÍ sendi til nefndarinnar sama dag í samræmi við 21. gr. reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál.
Fram kemur í greinargerð framkvæmdastjóra að málið varði ósæmileg opinber ummæli Rúnars Kristinssonar, þjálfara KR í mfl. karla, í viðtali sem birtust á vefmiðlunum Fotbolti.net og Vísir.is, þann 27. september. Var um að ræða opinber ummæli sem eru að mati framkvæmdastjóra til þess fallin að skaða ímynd íslenskrar knattspyrnu og með þeim sé vegið að heiðarleika leikmanns Fylkis í leik KR og Fylkis í Pepsi Max deild karla, þann 27. september sl.
Ákvað Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ á fundi sínum 6. október að sekta knattspyrnudeild KR, um kr. 50.000,- vegna framangreindra opinberra ummæla Rúnars.