1-1 jafntefli gegn Svíþjóð
A landslið kvenna mætti Svíþjóð á Laugardalsvelli í kvöld, þriðjudagskvöld, í toppslag riðilsins í undankeppni EM 2022. Fyrir leikinn voru bæði lið með fullt hús stiga eftir fjóra leiki.
Sænska liðið, sem situr í 5. sæti á styrkleikalista FIFA, var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og náðu Svíar að skapa sér nokkur góð færi, en eina mark fyrri hálfleiks gerði Anna Avnegård á 33. mínútu og gestirnir komnir í forystu. Íslenska liðið náði að koma knettinum í sænska markið undir lok fyrri hálfleiks, en dæmt var sóknarbrot og því fékk markið ekki að standa, en stelpurnar okkar létu það ekki á sig fá og byrjuðu þær seinni hálfleikinn af miklum krafti.
Íslenska liðið var betra liðið á vellinum í seinni hálfleik, sótti stíft og uppskar jöfnunarmark á 62. mínútu. Sveindís Jane Jónsdóttir tók þá langt innkast sem rataði á Elínu Mettu Jensen sem skoraði með skalla á nærstöng. Sænska liðið virtist ætla að sækja í sig veðrið eftir jöfnunarmarkið en Ísland lét engan bilbug á sér finna og var nálægt því að taka forystuna þegar Elín Metta átti skot í slána. Fleiri mörk voru þó ekki skoruð í leiknum og 1-1 jafntefli niðurstaðan. Hörkuleikur og frábær frammistaða íslenska liðsins.
Ísland og Svíþjóð eru því áfram jöfn að stigum í efstu tveimur sætum riðilsins, bæði lið með 13 stig eftir 5 leiki, en Svíar í efsta sæti á markatölu. Fyrr í dag mættust Lettland og Ungverjaland í sama riðli og þar unnu Ungverjar öruggan fimm marka sigur. Lettar sitja í fimmta og neðsta sæti riðilsins án stiga, Slóvakía er þar fyrir ofan með fjögur stig, en á tvo leiki til góða á Ungverjaland, sem er í 3. sæti með sjö stig.
Skoða leikina og stöðuna í riðlinum
Mynd með grein: Byrjunarlið Ísland gegn Svíþjóð.