Ísland mætir Svíþjóð í dag
Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland mætir í dag Svíþjóð í undankeppni EM 2022 og fer leikurinn fram á Laugardalsvelli.
Leikurinn hefst kl. 18:00 og verður í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 Sport. Liðin eru jöfn að stigum í efsta sæti riðilsins með 12 stig eftir fjóra leiki, en Svíþjóð eru með betri markatölu.
Viðureign dagsins er sú sextánda á milli liðanna. Ísland hefur unnið tvo leiki, einn hefur endað með jafntefli og Svíþjóð hefur haft betur 12 sinnum. Liðin mættust síðast 12. mars 2014 á Algarve Cup og endaði sá leikur með 2-1 sigri Íslands. Það voru þær Sara Björk Gunnarsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir sem skoruðu mörk Íslands í þeim leik.
Þess má geta að Sara Björk, fyrirliði liðsins, mun jafna landsleikjamet Katrínar Jónsdóttur ef hún tekur þátt í leiknum í dag. Katrín lék á sínum ferli 133 A landsleiki og skoraði í þeim 21 mark. Sara Björk hefur leikið 132 A landsleiki og skoraði í þeim 20 mörk.
Elín Metta Jensen lék A landsleik númer 50 gegn Lettlandi og Sandra Sigurðardóttir sinn þrítugasta leik. Ef Dagný Brynjarsdóttir kemur við sögu í leiknum gegn Svíþjóð mun hún leika sinn nítugasta A landsleik.