• mið. 16. sep. 2020
  • Mótamál
  • Landslið
  • U19 karla
  • Evrópuleikir
  • COVID-19

UEFA frestar og breytir vegna Covid-19

Á fundi framkvæmdastjórnar Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA) á þriðjudag voru teknar ákvarðanir um frestanir og breytingar á mótum, m.a. á milliriðlum U19 landsliða karla og Meistaradeild kvenna.  Breytingarnar koma til vegna Covid-19 ástandsins í Evrópu.

Milliriðlum U19 landsliða karla, sem áætlað var að færu fram í október, hefur nú verið frestað fram í nóvember, og 8-liða úrslitakeppnin sem fram fer á Norður-Írlandi í mars 2021 verður nú leikin með hreinu útsláttarfyrirkomulagi (8-liða úrslit, undanúrslit, og úrslitaleikur).  Sérstakt umspil ræður því svo hvaða lið verður fimmta Evrópuliðið í úrslitakeppni HM U20 liða karla árið 2021.  

Forkeppni Meistaradeildar kvenna hefur nú verið breytt þannig að í stað hefðbundinnar forkeppni (hraðmóts/riðlakeppni) verða leiknar tvær umferðir af útsláttarkeppni (einn leikur í umferð, ekki heima og heiman). 40 lið taka þátt í 1. umferð forkeppninnar sem fram fer dagana 3. eða 4. nóvember og liðin 20 sem vinna sína leiki komast áfram í 2. umferð, sem leikin verður 18. eða 19. nóvember. 32-liða úrslitin fara svo fram í desember, en þá er leikið heima og heiman - 8. eða 9. desember og 15. eða 16. desember.  Engar breytingar eru fyrirhugaðar á öðrum umferðum í keppninni.

Skoða nánar á vef UEFA