Undirbúningur hafinn fyrir leiki gegn Lettlandi og Svíþjóð
Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
A landslið kvenna kom saman á mánudag og hóf undirbúning sinn fyrir leiki gegn Lettlandi og Svíþjóð í undankeppni EM 2022.
Síðasti leikur Íslands í undankeppninni var einmitt gegn Lettlandi ytra. Þar léku stelpurnar á alls oddi og unnu 6-0 sigur með mörkum frá Fanndísi Friðiksdóttur, en hún skoraði tvö, Dagnýju Brynjarsdóttur, Alexöndru Jóhannsdóttur, Margréti Láru Viðarsdóttur og Elínu Mettu Jensen.
Ísland og Svíþjóð eru jöfn að stigum í tveimur efstu sætum riðilsins eftir þrjá leiki, en Svíþjóð situr í fyrsta sæti sökum betri markatölu. Lettlandi eru neðstar, eftir fjóra leiki, án stiga.
Ísland mætir Lettlandi fimmtudaginn 17. september kl. 18:45 og Svíþjóð þriðjudaginn 22. september kl. 18:00. Báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli. Engir áhorfendur eru leyfðir á leikjunum, en þeir verða báðir í beinni útsendingu í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport.