Áhorfendum fjölgar í Pepsi Max deild kvenna
Pepsi Max deild kvenna hefur farið vel af stað í sumar og vakið mikinn áhuga knattspyrnuunnenda, sem endurspeglast í aukinni aðsókn að leikjum deildarinnar. Meðalaðsókn það sem af er sumri er 273, sem er nokkru hærra en heildarmeðaltal síðustu tveggja ára, en tímabilið 2018 var meðalaðsóknin 186 og hækkaði í 217 tímabilið 2019.
Besta meðalaðsóknin er að heimaleikjum Breiðabliks, eða 491, og þar á eftir kemur Selfoss með 351 áhorfanda að meðaltali. KR og Fylkir eru einnig með yfir 300 að meðaltali. Þegar litið er til útileikja mæta flestir að meðaltali á útileiki Vals, eða 430, og þar á eftir koma FH (299) og Fylkir (297). FH-ingar eru með næst lægstu aðsóknina að sínum heimaleikjum, en næst bestu aðsóknina þegar kemur að útileikjum.
Best sóttu leikirnir hingað til hafa verið á Kópavogsvellinum - annars vegar leikur Breiðabliks og Íslandsmeistara Vals (683) og svo þegar þegar Breiðablik tók á móti FH (485). Þriðji best sótti staki leikurinn það sem af er sumri er svo heimaleikur Þróttar gegn Val (425 áhorfendur) og fjórði besti leikur Selfoss og Breiðabliks (417).
Næstu leikir í Pepsi Max deild kvenna eru á föstudag.
Mynd með grein: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net