1 af hverjum 12 körlum er litblindur
KSÍ minnir á verkefnið „Litblinda í fótbolta“. Tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á stöðu litblindra þátttakenda í fótbolta (leikmanna, þjálfara, dómara, stuðningsmanna og annarra) og því hvaða áhrif það getur haft ef ekki er tekið tillit til þeirra í starfinu og skipulagningu þess - á æfingum og í leikjum. Hér er átt við liti á t.d. keilum og vestum, keppnisbúningum og öðru.
Vissir þú að 1 af hverjum 12 körlum og 1 af hverjum 200 konum er litblind? Tölfræðilega séð er því t.d. líklegt að í hópi þeirra 25 einstaklinga sem eru inni á vellinum hverju sinni í meistaraflokki karla (22 leikmenn og 3 dómarar) séu 2 litblindir, og að t.d. í hópi eitt þúsund áhorfenda á tilteknum leik séu nokkrir tugir litblindra áhorfenda. Sé ekki tekið tillit til litblindu getur það t.d. orðið til þess að ungur litblindur iðkandi hætti að mæta á æfingar, að litblindur stuðningsmaður hætti að mæta á leiki, o.s.frv.
Litblinda getur haft áhrif á alla sem tengjast fótbolta - áhorfendur, leikmenn, þjálfara, dómara og aðra starfsmenn í kringum leikinn.
KSÍ hefur unnið tvö myndbönd um viðfangsefnið sem eru birt reglulega á samfélagsmiðlum KSÍ og hafa fengið mikla dreifingu. Myndböndin og nánari upplýsingar um verkefnið má einnig sjá á vef KSÍ.
Smellið hér til að lesa nánar um verkefnið og horfa á myndbönd