Sértækar ráðstafanir um mótahald vegna Covid-19
Á fundi sínum 17. júlí samþykkti stjórn KSÍ reglugerð KSÍ um viðmiðanir og sértækar ráðstafanir vegna heimsfaraldurs kórónaveiru (Covid-19). Reglugerð þessi er í gildi tímabundið en hún nær aðeins yfir keppnistímabilið 2020 og fellur úr gildi þann 31. desember 2020.
Í reglugerðinni er nánar kveðið á um reglur sem segja til um hvers konar aðgerða verði gripið til ef ekki er hægt að ljúka mótum vegna Covid-19 veirunnar. Er reglugerðinni þannig ætlað að tryggja gegnsæi og fyrirsjáanleika í mótahaldi eins og kostur er.
Meðal þess sem fjallað er um í reglugerðinni eru forsendur fyrir frestun leikja, þar sem segir að mótanefnd skuli fresta leik óski félag eftir því þegar eftirfarandi á við:
Fimm leikmenn eða fleiri í öðru hvoru keppnisliðinu, sem hafa verið í byrjunarliði þess/þeirra í öðrum af síðustu tveimur leikjum liðsins, geta ekki tekið þátt í viðkomandi keppnisleik þar sem þeim hefur verið gert að sæta einangrun eða sóttkví skv. reglum útgefnum af heilbrigðisráðherra, eftir að hafa verið greindir með Covid-19 sjúkdóminn eða orðið útsettir fyrir Covid-19 smiti."
Fram kemur um úrslit ólokins móts að ef sýnt þykir að ekki sé unnt að ljúka Íslandsmótinu samkvæmt mótaskrá vegna Covid-19 getur mótanefnd í samráði við stjórn KSÍ aflýst móti í öllum deildum eða einstaka deildum.
"Hafi að lágmarki 2/3 hlutar heildarleikja ... verið leiknir samkvæmt mótaskrá ræður meðalfjöldi stiga hvers liðs fyrir sig í hverjum leik sem það hefur lokið á þeim degi þegar móti er aflýst, endanlegri niðurröðun. Telst Íslandsmótinu þar með lokið. Skulu þá Íslandsmeistarar krýndir í hverri deild og lið færast á milli deilda með sama hætti og ef allir leikir í þessum deildum á Íslandsmóti hefðu verið leiknir."
Önnur atriði sem reglugerðin fjallar um snúa m.a. að nýjum leikdögum frestaðra leikja, þátttöku í Evrópukeppnum og fleiri atriðum. Smellið hér að neðan til að skoða alla reglugerðina og dreifibréf til aðildarfélaga.
Mynd með grein: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net