Úrskurðaður í fimm leikja bann
Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur kveðið upp úrskurð sinn í kærumáli nr. 5/2020 er varða ummæli leikmanns Skallagríms í leik gegn Berserkjum í 4. deild karla þann 10. júlí síðastliðinn.
Í niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar kemur m.a. fram:
Mál þetta fellur undir lögsögu Aga- og úrskurðarnefndar KSÍ í samræmi við ákvæði 6.2. og 6.3. í reglugerð um aga- og úrskurðarmál. Í samræmi við ákvæðin úrskurðar Aga- og úrskurðarnefnd m.a. um mál sem nefndin telur ástæðu til að hafa afskipti af vegna knattspyrnuleikja sem fram fara á Íslandi enda fjalli ekki aðrir um þau. Nefndin getur úrskurðað um alvarleg agabrot sem dómari og aðstoðarmenn hans sáu ekki í leik og brugðust því ekki við. Nefndin skal í slíkum tilfellum óska eftir athugasemdum viðkomandi aðila.
Á aukafundi nefndarinnar 16. júlí var tekin fyrir greinargerð sem barst til nefndarinnar frá aðstoðardómara í umræddum leik. Greinargerðin, sem barst skrifstofu KSÍ þann 11. júlí sl., var send til knattspyrnudeildar Skallagríms og félaginu gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum í málinu á framfæri við nefndina. Á aukafundi nefndarinnar 16. júlí lá fyrir greinargerð sem barst nefndinni þann 15. júlí frá knattspyrnudeild Skallagríms.
Úrskurðarorð:
Atli Steinar Ingason skal sæta leikbanni í 5 leiki í keppnum á vegum KSÍ og tekur bannið gildi nú þegar. Auk þess sætir Atli Steinar banni frá leikvelli Skallagríms í Borgarnesi á meðan leikbannið varir. Knattspyrnudeild Skallagríms skal sæta sekt að upphæð kr. 100.000 til KSÍ.
Smellið hér til að skoða úrskurðinn í heild sinni
Um hlutverk, skipulag og verklag aga- og úrskurðarnefndar
Aga- og úrskurðarnefnd er sjálfstætt úrskurðarvald knattspyrnuhreyfingarinnar og starfar óháð stjórn KSÍ, öðrum nefndum, skrifstofu KSÍ, eða öðrum aðilum og einingum innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Hlutverki, skipulagi og verklagi aga- og úrskurðarnefndar er lýst í lögum KSÍ, reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál og starfsreglum nefndarinnar.