Nýr tengiliður KSÍ við stuðningsmenn landsliða
KSÍ hefur tilnefnt Svein Ásgeirsson sem tengilið KSÍ við stuðningsmannahópa landsliða Íslands í knattspyrnu (Supporters Liaison Officer - SLO). Sveinn hefur um árabil verið virkur félagsmaður í Tólfunni, meðal annars setið í stjórn þessa stærsta og þekktasta stuðningsmannahóps landsliðsins, og hefur því góða þekkingu á því umhverfi sem stuðningsmenn lifa og hrærast í, enda eldheitur stuðningsmaður sjálfur. Tengiliður við stuðningsmenn er sjálfboðaliði og þiggur ekki laun fyrir.
Hlutverk tengiliðs við stuðningsmenn er m.a. að viðhalda tengslum og afla nýrra tengsla við smáa sem stóra stuðningsmannahópa sem vilja sækja landsleiki og taka þátt í að skapa stemmningu á vellinum. Tengiliðurinn er lykilmaður í því að byggja upp menningu og hefð fyrir öflugum stuðningsmannahópum landsliða Íslands í knattspyrnu. Jafnframt er tengiliður stuðningamannahópa landsliða Íslands tengiliður við stuðningsmannahópa þeirra gestaliða sem koma hingað til lands til að leika við íslensk landslið, og hann starfar með sama hætti eftir atvikum fyrir hönd íslenskra stuðningsmannahópa sem ferðast á útileiki landsliða og í lokakeppnir stórmóta. SLO starfar í nánum tengslum við öryggisstjóra í aðdraganda leikja og á leikdegi.
Nánar um tengilið við stuðningsmenn