• mán. 15. jún. 2020
  • Mótamál
  • COVID-19

COVID-19 - Uppfærðar leiðbeiningar vegna framkvæmdar leikja

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Í samræmi við breytingar á takmörkunum samkomubanns hefur KSÍ nú uppfært leiðbeiningar vegna framkvæmdar knattspyrnuleikja í meistaraflokkum. Leiðbeiningarnar eru ætlaðar til stuðnings fyrir aðildarfélög við framkvæmd sóttvarna á leikjum sínum í sumar.

Megin breytingin felst í áhorfendafjölda en frá og með deginum í dag mega vera 500 áhorfendur á viðburðum og ef áhorfendasvæði er skipt í sóttvarnarhólf er heimilt að allt að 500 áhorfendur geti verið í hverju hólfi. Börn fædd 2005 og síðar telja ekki með í hámarksfjölda áhorfenda á leikjum. Nokkur breyting hefur einnig verið gerð á kaflanum sem snýr að fjölmiðlum en starfsmenn fjölmiðla og framkvæmdaraðilar leikja eru hvattir til að fylgja leiðbeiningum eins vel og nokkur kostur er.

Líkt og áður er helsta markmið leiðbeininganna að lágmarka hættuna á að leikmenn, starfsmenn liða, starfsmenn félaga og aðrir þátttakendur leiksins smitist af COVID-19. Aðildarfélögum KSÍ og leikmönnum er bent á að sé leiðbeiningum fylgt eftir minnka líkurnar á að leikmenn þurfi að fara í sóttkví þó upp komi smit meðal áhorfenda á knattspyrnuleikjum. Tímarammi íslandsmótanna þetta árið er mjög þröngur og lítið má út af bera til að framgangur mótsins verði í hættu.

Forráðamenn félaga og leikmenn eru hvattir til að gæta sérstaklega að sóttvörnum á eftirfarandi stöðum:

  • Varamannabekkir
  • Rútur/bílar - ferðir í leiki
  • Búningsklefar
  • Liðsfundir