• fös. 29. maí 2020
  • Stjórn
  • Fundargerðir

2239. fundur stjórnar KSÍ - 28. maí 2020

2239. fundur stjórnar Knattspyrnusambands Íslands var haldinn fimmtudaginn 28. maí 2020 á skrifstofu KSÍ á Laugardalsvelli og hófst kl. 16:00.

Mættir: Guðni Bergsson formaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Ásgeir Ásgeirsson, Haraldur Haraldsson, Ingi Sigurðsson, Magnús Gylfason, Ragnhildur Skúladóttir, Valgeir Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson.

Mættur varamaður: Þóroddur Hjaltalín (tók sæti Gísla Gíslasonar).

Mættur framkvæmdastjóri: Klara Bjartmarz, sem ritaði fundargerð.

Forföll: Gísli Gíslason varaformaður.

Þetta var gert:

1 Fundargerð síðasta stjórnarfundar var þegar samþykkt á rafrænan hátt á milli funda af öllum stjórnarmönnum sambandsins.

2 Fundargerðir nefnda og starfshópa voru lagðar fram til kynningar. Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar fylgdi fundargerðum nefndarinnar úr hlaði og skýrði fyrir stjórn.

2.1 Mótanefnd 19. maí 2020

2.2 Mótanefnd 26. maí 2020

3 Skipan í embætti og nefndir

3.1 Stjórn KSÍ samþykkti að skipa varaformenn þau Gísla Gíslason (fyrsti varaformaður) og Borghildi Sigurðardóttur (annar varaformaður).

3.2 Stjórn KSÍ samþykkti skipan í nefndir á vegum sambandsins fyrir starfsárið 2020-2021. Sjá fylgiskjal merkt 3.2.

4 Reglugerðarbreytingar

4.1 Stjórn KSÍ samþykkti breytingu á reglugerð um knattspyrnumót, fjöldi skiptinga. Sjá fylgiskjal merkt 4.1.

4.2 Stjórn KSÍ samþykkti breytingu á reglugerð um aðgönguskírteini. Sjá fylgiskjal merkt 4.2.

4.3 Stjórn KSÍ samþykkti breytingu á reglugerð KSÍ um ferðaþátttökugjald. Sjá fylgiskjal merkt 4.3.

4.4 Stjórn KSÍ samþykkti breytingu reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál og breytingu á starfsreglum nefndarinnar. Sjá fylgiskjal merkt 4.4.

5 Fjármál

5.1 Framkvæmdastjóri KSÍ, Klara Bjartmarz, kynnti þriggja mánaðar uppgjör miðað við endurskoðaða fjárhagsáætlun. Miðað við fyrstu þrjá mánuði ársins eru flestir liðir á áætlun en þó ber að hafa í huga að samanburður er erfiður þar sem frestunaráhrif geta komið fram síðar. Mikil óvissa gildir um bæði tekju- og gjaldahlið á komandi mánuðum.

5.2 Formaður KSÍ, Guðni Bergsson, kynnti aðgerðir til stuðnings við aðildarfélög KSÍ í samræmi við umræðu á fyrri stjórnarfundum. Stjórn KSÍ samþykkti að greiða út 100 milljónum króna af eigin fé sambandsins til aðildarfélaga KSÍ, sbr. eftirfarandi bókun:

Stjórn Knattspyrnusambands Íslands hefur allt frá því samkomubann var fyrirskipað þann 16. mars sl. unnið sérstaklega að hagsmunagæslu fyrir aðildarfélög KSÍ og að greiningu á aðstæðum þeirra í samvinnu við aðildarfélögin og Deloitte. Hagsmunagæslan hefur m.a. falist í samskiptum við ríkið og áskorun um breytingar á launaúrræðum og hlutabótaleið ríkisins. Einnig hefur verið barist fyrir auknu framlagi til íþróttahreyfingarinnar, sem var hækkað í fyrstu atrennu úr 250,0 mkr. í 450,0 mkr.

Þá hefur KSÍ óskað eftir því við FIFA og UEFA að alþjóðasamböndin grípi til aðgerða með sérstökum framlögum sem knattspyrnusamböndum yrði m.a heimilt að greiða til aðildarfélaga. Þessi framlög kæmu þá til viðbótar fyrirframgreiddum rekstrarframlögum alþjóðasambandanna sem gert er ráð fyrir í framtíðarrekstraráætlunum KSÍ.

Einnig hefur stjórn KSÍ samþykkt áskorun um að sveitarfélögin í landinu leggi íþróttahreyfingunni aukið lið m.a. með tilliti til barna- og unglingastarfs og mikilvægi þess í þeirri viðspyrnu sem nauðsynleg er að loknu samkomubanni. Er vonast eftir aðgerðum sveitarfélaga í þessu sambandi.

Öllum er ljóst að nauðsynlegar sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda hafa haft í för með sér verulegt tjón fyrir knattspyrnuhreyfinguna. Einnig hafa tekjur frá styrktar- og samstarfsaðilum hrunið vegna efnahagsástandsins. Þrátt fyrir framlag ríkissjóðs til íþróttafélaga og aðgerðir á grunni svonefndra hlutastarfareglna þá duga þær aðgerðir skammt þegar horft er til heildartekjutaps félaganna.

Samkvæmt 7. grein laga KSÍ fer stjórn KSÍ með æðsta vald í málefnum sambandsins á milli ársþinga. Í ljósi þess að umboð stjórnar er á grundvelli samþykktrar fjárhagsáætlunar ársþings KSÍ þá er óhjákvæmilegt að stjórn KSÍ grípi til fordæmalausra aðgerða í því skyni að liðsinna félögum sem eru aðilar að knattspyrnusambandinu. Sú aðgerð felur í sér verulega breytingu á fjárhagsáætlun ársins. Hafa verður einnig í huga að aðgerðir vegna Covid-19 hafa haft veruleg áhrif á fjárhag KSÍ og ekki ljóst hver þau áhrif endanlega verða, m.a. vegna frestunar landsleikja og óvissu um nýja leikdaga ásamt mögulegum takmörkunum á fjölda áhorfenda. Einnig hefur verið horft til álits starfshóps um æskilegt eigið fé KSÍ. Stjórnin hefur unnið ákveðnar sviðsmyndir um möguleg áhrif ákvarðana UEFA varðandi umspilsleiki A landsliðs karla og leiki í Þjóðadeildinni, en ekki liggur fyrir hvenær þau mál skýrast endanlega.

Með vísan til alls framangreinds þá hefur stjórn KSÍ samþykkt á fundum sínum 2., 8. apríl og 28. maí eftirfarandi aðgerðir í þágu aðildarfélaganna:

  1. Að flýta greiðslum til félaga í Pepsi Max deild karla vegna sjónvarpsréttar - alls að fjárhæð 52,8 mkr. Staðfest á fundi stjórnar 2. apríl 2020.
  2. Að flýta greiðslum til félaga í neðri deildum vegna barna- og unglingastyrks – alls að fjárhæð 43,0 mkr. Samþykkt á stjórnarfundi 8. apríl 2020.
  3. Niðurfelling á gjaldi vegna endurskráningar samninga vegna Covid-19. Samþykkt á fundi fjárhags- og endurskoðunarnefndar KSÍ í apríl 2020.
  4. Niðurfelling á þátttökugjöldum (100.000.- á hvert lið meistaraflokka, samtals 11.600.000.-) og ferðajöfnunargjaldi (75.000.- pr. skráð lið í meistaraflokki, samtals um 8.250.000.-). Samþykkt á stjórnarfundi 28. maí 2020.
  5. Úthlutun til aðildarfélaga, kr. 100 milljónir af eigin fé KSÍ til að koma til móts við fjárhagslegt tjón sem félögin hafa orðið fyrir vegna Covid-19 faraldursins. Samþykkt á stjórnarfundi 28. maí 2020.

Skipting þeirrar úthlutunar sem nefnd er hér að ofan í 5. lið er framkvæmd á grundvelli reiknilíkans sem var hannað og notast við fyrir útgreiðslu sérstaks EM-framlags 2016 og HM-framlags árið 2018. Í því líkani er félögum skipt upp í tvo flokka. Annars vegar félög með barna- og unglingastarf og hins vegar félög án þess.

Félögin með barna- og unglingastarf, sem eru alls 46, fá 100 mkr. úthlutun frá KSÍ sem skiptast eftir gefnum stigum sem miðast við stöðu í deildum karla og kvenna á tímabilunum 2019 og 2020.

Öll aðildarfélög KSÍ, bæði félög með barna og unglingastarf og félög án þess, fá þar að auki niðurfellingu ferðaþátttöku- og þátttökugjalds (skráningargjalds), alls tæpar 20 milljónir.

Knattspyrnusambandið mun eftir sem áður halda áfram hagsmunagæslu sinni og styðja eftir megni við aðildarfélög sín. Þess má geta í því sambandi að á undanförnum þremur árum, að fyrrgreindum aðgerðum meðtöldum hefur sambandið nú greitt út til aðildarfélaganna um 700,0 mkr ásamt því að standa straum af öllum dómarakostnaði meistaraflokka á Íslandsmótum sem nemur um 480,0 mkr.

---

Stjórn fór yfir og staðfesti lista yfir greiðslur til félaga sem sjá má í fylgiskjali merktu 5.2.

6 Mótamál

6.1 Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar upplýsti stjórn um stöðuna í mótamálum sambandsins. Rætt var um fyrirvara við mótin 2020 en frekari umræðu og ákvarðanatöku var frestað.

7 Mannvirkjamál

7.1 Ingi Sigurðsson formaður mannvirkjanefndar fór yfir stöðuna á mannvirkjamálum. Eftir er að gefa út vallarleyfi fyrir Fjarðabyggðarhöllina og Ísafjarðarvöll. Framkvæmdir á þessum völlum/svæðum ganga vel og ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að gefa út vallarleyfi á næsta stjórnarfundi.

7.2 Mannvirkjanefnd er að fara yfir umsóknir í mannvirkjasjóð. Nefndin fundar 8. júní og undirbýr tillögu til stjórnar.

8 Önnur mál

8.1 Lagt var fram bréf frá þrettán aðildarfélögum KSÍ (Dalvík/Reynir, Fjarðabyggð, Haukar, Njarðvík, Víðir, Völsungur, Þróttur V., Einherji, Reynir S., Sindri, Álftanes, Snæfell og Hamar) þar sem þau koma á framfæri þakklæti til stjórnar KSÍ og starfsmanna fyrir góð og skilvirk samskipti við erfiðar aðstæður. Þá hvetja félögin til þess að stofnað verði til bikarkeppni neðri deilda með tillögu frá KSÍ sem lögð verði fyrir á næsta ársþingi. Stjórn KSÍ þakkar hlýjar kveðjur og tekur undir hversu vel starfsfólk sambandsins hefur staðið sig við krefjandi aðstæður. Stjórn KSÍ samþykkti að vísa málinu til mótanefndar til umfjöllunar.

8.2 FIFA hefur samþykkt beiðni KSÍ um nýjar skilgreiningar á keppnistímabilinu og félagaskiptatímabilinu 2020 í samræmi við ákvörðun stjórnar KSÍ þann 14. maí síðastliðinn.

8.3 Framkvæmdastjóri KSÍ greindi stjórn sambandsins frá heimsókn starfsmanna til Hauka á Ásvöllum og tilboði Hauka um að halda ársþing sambandsins 2021. Málið var áður rætt á stjórnarfundi þann 19. mars 2020. Stjórn KSÍ samþykkti að ársþing KSÍ 2021 fari fram á Ásvöllum í Hafnarfirði í umsjón Hauka og gaf framkvæmdastjóra KSÍ umboð til að ganga til samninga við Hauka um framkvæmdina. Um er að ræða tilraunaverkefni sem verður endurmetið strax eftir ársþing.

8.4 Þóroddur Hjaltalín formaður dómaranefndar gaf stjórn skýrslu um stöðu dómaramála fyrir komandi tímabil. Flestir deildadómarar KSÍ hafa þegar lokið þrekprófi og eru vel undirbúnir fyrir tímabilið. Þá ræddi Þóroddur um VAR og skilyrði til þess að prófa tæknilega útfærslu á kerfinu hér á landi (án notkunar VAR í leiknum sjálfum).

8.5 Samningur KSÍ við PUMA var gerður opinber fyrr í vikunni. Nýr búningur og ýmsar nýjungar verða kynntar um mánaðamótin júní/júlí.

Næsti stjórnarfundur verður fimmtudaginn 18. júní 2020.

Fleira var ekki á dagskrá og var fundi slitið kl. 18:15.

Skoða alla fundargerðina og fylgiskjöl