Viðauki við handbók leikja sem inniheldur tilmæli vegna COVID-19
Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KSÍ gefur út leiðbeiningar vegna framkvæmdar knattspyrnuleikja í meistaraflokkum vegna sóttvarnaraðgerða heilbrigðisyfirvalda og almannavarna.
Leiðbeiningarnar eru byggðar á tilmælum þessara aðila og taka mið af aðstæðum við framkvæmd leikja í meistaraflokkum, en einnig er til hliðsjónar Handbók leikja 2020 og reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga.
Markmið leiðbeininganna er að lágmarka áhættuna á að leikmenn, starfsmenn liða, starfsmenn félaga og aðrir þátttakendur leiksins smitist af COVID-19, og gilda þar til annað verður ákveðið.
Mikilvægasta vopn samfélagsins gegn COVID-19 eru þær almennu sóttvarnaraðgerðir sem embætti landlæknis og almannavarnir hafa kynnt ítarlega síðustu vikurnar. Þessar almennu aðgerðir eru jafn mikilvægar í kringum knattspyrnuleiki og annars staðar í samfélaginu.
Hægt er að lesa frekar um viðaukann á vef KSÍ hér að neðan, en þeim er skipt í þrjá hluta sem eru leikvangur og framkvæmd leikja, áhorfendur og fjölmiðlar:
Viðauki við handbók leikja
KSÍ hvetur alla sem koma að framkvæmd knattspyrnuleikja til að temja sér þessar aðgerðir sérstaklega.
-Handþvottur og sótthreinsun.
-Regluleg sótthreinsun snertifleta.
-Fækka snertiflötum eins og hægt er (t.d. hafa hurðir opnar, öll ljós kveikt o.s.frv.).
-Nota rakningarapp almannavarna.
-Þau sem finna fyrir minnstu einkennum veikinda ættu að halda sig heima.
-Fylgja fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og almannavarna um sóttkví og/eða einangrun.