• mán. 04. maí 2020
  • Landslið

Nýr samningur undirritaður við Johan Sports GPS

KSÍ og Johan Sports GPS hafa undirritað nýjan samning sem gildir til ársins 2023.

A landslið karla og kvenna, ásamt U21 landsliði karla, hafa undanfarið ár notað GPS tæki á æfingum og í leikjum frá Johan Sports. Þessi tæki eru notuð til að mæla og greina hlaupatölur leikmanna, fjarlægð sem þeir hlaupa, hámarkshraða, hversu marga metra leikmaðurinn hleypur á háum hraða o.s.frv.  Svör við þessum spurningum, og mörgum öðrum, er hægt að fá með GPS mælingum. Atvinnumannalið í knattspyrnu nota nánast öll GPS tæki til að fylgjast með álagi leikmanna í leikjum og við æfingar.

Með nýjum samningi hefur KSÍ fest kaup á fleiri GPS tækjum og er ætlunin að yngri landslið hefji notkun á þeim sumarið 2020.

Arnar Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnusviðs KSÍ:  "GPS mælingar gefa áreiðanlegri mynd af því hvar leikmenn okkar standa og með því er einnig hægt að stýra álaginu á leikmanninn. Öllum hlaupatölum er hlaðið í gagnagrunn og er því hægt að bera leikmenn saman við aðra sem hafa sama  eða svipaðan leikstíl."

Markmiðið er að árið 2025 verði kominn upp nákvæmur gagnagrunnur og yfirsýn á hlaupagetu íslenskra leikmanna.