KSÍ skrifar undir samning við Wyscout
KSÍ hefur skrifað undir 3 ára samning við skimunar (e. scouting) fyrirtækið Wyscout. Fyrirtækið er eitt það virtasta í Evrópu þegar kemur að því að klippa, greina og geyma leiki.
Samningurinn inniheldur aðgang fyrir þjálfara landsliða Íslands ásamt einum aðgangi fyrir hvert lið í Pepsi Max deildunum. Þar að auki er verið að skoða möguleikann á að opna svæði fyrir yngri flokka á Íslandi.
Á undanförnum árum hefur myndbandsupptaka af leikjum yngri flokka aukist mikið og er ætlunin að reyna að ná þessum upptökum á miðlægan gagnagrunn svo lið geti lært hvert af öðru.
Undanfarin ár hafa þjálfarar Pepsi Max deildanna og landsliðsþjálfarar Íslands getað nýtt sér sömu þjónustu frá öðru fyrirtæki og almenn ánægja hefur verið með þetta. Svona þjónusta hjálpar þjálfurum mikið og eykur faglegt starf í íslenskri knattspyrnu til muna.
Þjálfarar eru byrjaðir að nota kerfið og á næstu vikum mun Wyscout bjóða upp á kennslu á netinu.
Knattspyrnusvið KSÍ er einnig lokasprettinum að koma þessu frábæra verkefni að í 1. deild karla.
Arnar Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnusviðs KSÍ: "Þessi samningur er gott dæmi um verkefni þar sem nýtum okkur að vera lítil þjóð. Hér er farið í sameiginlegt verkefni á milli KSÍ og aðildarfélaganna þar sem KSÍ hjálpar félögunum að ná góðum kjörum. Með því geta félögin nýtt sér sömu tækni og þjónustu og bestu lið Evrópu. Þetta er á meðal þeirra verkefna sem Knattspyrnusvið KSÍ er að vinna að til að bæta það frábæra starf sem unnið er í félögunum, og með því bæta íslenska knattspyrnu til framtíðar."