• mið. 29. apr. 2020
  • Lög og reglugerðir
  • Mótamál

Breytingar á reglugerð KSÍ um knattspyrnu í 5, 7- og 8 manna liðum

Á fundi stjórnar KSÍ 22. apríl sl., samþykkti stjórn KSÍ breytingar á reglugerð KSÍ um knattspyrnu í 5 manna liðum, reglugerð KSÍ um knattspyrnu í 7- og 8 manna liðum og reglugerð KSÍ um knattspyrnumót.

Framangreindar breytingar snúa m.a. að lengingu leiktíma leikja í 5. aldursflokki en heildarleiktími verður nú 60 mínútur í stað 40. Þá hafa verið gerðar breytingar á reglum um markspyrnu og innkast í 5. aldursflokki og yngri aldursflokkum.

Um að ræða breytingar sem unnar voru og lagðar til af knattspyrnusviði KSÍ. Fyrst ber að nefna breytingar á leiktíma leikja í Íslandsmóti í 5. aldursflokki. Áður var umræddur leiktími 2x 20 mínútur en verður nú 2x 30 mín. Leikhlé verður áfram fimm mínútur en því til viðbótar skal stöðva leik í u.þ.b. tvær mínútur um miðjan fyrri hálfleik og aftur um miðjan seinni hálfleik.

Einnig hafa breytingar verið gerðar á reglum um hverning markspyrna skuli framkvæmd. Samkvæmt nýjum reglum er markmanni eða leikmanni heimilt, þegar markspyrna hefur verið dæmd, að koma bolta í leik með því að rekja hann af stað. Skulu allir mótherjar vera utan vítateigs þar til boltinn er kominn í leik.

Loks hafa breytingar verið gerðar á reglum um innkast. Í 5. flokki og yngri aldursflokkum skal í stað innkasts koma bolta í leik með innsparki eða knattraki. Innspark skal framkvæmt þannig að bolti er lagður kyrr á hliðarlínu og honum komið í leik með sendingu. Óheimilt er að lyfta bolta hærra en í hnéhæð með innsparki og þá er óheimilt að skora beint úr innsparki. Knattrak skal framkvæmt þannig að bolti er lagður kyrr á hliðarlínu og honum komið í leik með því að rekja boltann af stað frá hliðarlínu. Leikmanni er heimilt að skora eftir að hann kemur bolta í leik með knattraki. Allir mótherjar verða að standa a.m.k. tveimur metrum frá þeim stað á hliðarlínunni sem taka á innspark eða knattrakið frá

Dreifibréfið