Sálfræðilegar mælingar samhliða líkamlegum
Samhliða mælingum á líkamlegu atgervi hjá öllum leikmönnum á landinu sem eru á eldra ári í 3. flokki, og greint var frá í frétt hér á vefnum fyrr í vikunni, fóru fram sálfræðilegar mælingar á sömu leikmönnum.
Grímur Gunnarsson, nemi í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík, framkvæmdi mælingarnar undir handleiðslu íþróttasálfræðinganna Hafrúnar Kristjánsdóttur og Halls Hallssonar. Sálfræðilegur hluti þessar umfangsmiklu rannsóknar hlaut fjárstyrk frá Rannís. Unnið verður úr þeim gögnum sem safnast í rannsókninni og útbúið fræðsluefni um andlega þáttinn í íþróttum almennt.
Grímur mun jafnframt aðstoða KSÍ í sumar við að bæta afreksstarf yngri landsliðanna hvað varðar sálfræðihlutann.