eFótbolti - Sigur gegn Skotlandi og tap gegn Wales í æfingamóti
Ísland lék tvo leiki í æfingamóti í eFótbolta, gegn Wales og Skotlandi. Sigur vannst gegn Skotum, en leikurinn gegn Wales tapaðist.
Þess má geta að Róbert Daði Sigurþórsson vann einn besta FIFA spilari í heimi, Marc Marley frá Skotlandi, 1-0!
Fyrri leikur liðsins var gegn Wales og reið Róbert Daði Sigurþórsson á vaðið gegn kollega sínum. Leikurinn var jafn allan tímann og náðu bæði lið að halda boltanum vel og byggja upp hættulegar sóknir. Ísland komst yfir strax á 12. mínútu þegar Alfreð Finnbogason skoraði eftir gott spil. Ísland var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og var óheppinn að skora ekki fleiri mörk í fyrri hálfleik. Staðan því 1-0 í hálfleik.
Wales komu sterkir til baka í síðari hálfleik og jafnaði Harry Wilson metin eftir sex mínútna leik. Leikurinn var jafn, en á 78. mínútu kom Gylfi Sigurðsson Íslandi í 2-1 með góðu skoti úr teignum eftir frábært spil. Forystan entist hins vegar ekki lengi og þremur mínútum síðar jafnaði David Brooks og 2-2 jafntefli því staðreynd í fyrri leiknum.
Birkir Már Sævarsson mætti síðan Robbie Matondo, leikmanni Schalke, í síðari leiknum, en úrslit leikjanna eru lögð saman að þeim loknum. Leikurinn var nokkuð jafn til að byrja með en síðan tók Matondo frumkvæðið í leiknum og skoraði fimm mörk á 20 mínútna kafla í fyrri hálfleik. Mörkin gerðu þeir Aaron Ramsey, Gareth Bale, með tvö, Connor Robberts og Daniel James. Ísland klóraði í bakkann í síðari hálfleik með góðu marki frá Gylfa Sigurðssyni. Samanlagt 7-3 tap gegn Wales því staðreynd.
Róbert Aron lék aftur fyrri leik Íslands gegn Skotlandi, en það var Marc Marley sem lék fyrir hönd Skota. Þess má geta að hann er einn af fremstu FIFA spilurum í heimi og leikur með Bournemouth í eFótbolta.
Skotar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, vorum meira með boltann og áttu fleiri færi. Það var hins vegar Ísland sem skoraði eina markið í hálfleiknum. Það var Gylfi Sigurðsson sem skoraði það undir lok fyrri hálfleiks. Síðari hálfleikurinn var spennandi, Skotar héldu áfram að pressa á íslensku vörnina. Hún hélt og glæsilegur 1-0 sigur Róberts Daða gegn einum besta FIFA spilari í heimi staðreynd!
Birkir Már og John McGinn mættust síðan í síðari leiknum. Skotar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og áttu tvö dauðafæri, en tókst ekki að koma boltanum í netið. Það var svo Eamonn Brophy sem skoraði eina mark fyrri hálfleiksins í uppbótartíma. Staðan því 1-0 í hálfleik fyrir Skotum.
Síðari hálfleikur var jafn og kom Ísland sterkt inn í hann. Bæði lið fengu færi, en í uppbótartíma leiksins komst Ísland í gegn og brotið var á leikmanni liðsins í vítateignum. Víti var dæmt og Alfreð Finnbogason setti boltann í netið af punktinum. Leiknum lauk því með 1-1 jafntefli og samanlögðum 2-1 sigri Íslands!
Wales endaði í efsta sæti riðilsins eftir tvo sigra og fer því áfram í átta liða úrslitin, en Íslands endar í öðru sæti sem er frábær árangur. Frammistaðan í dag sýnir að bjartir tímar eru framundan í eFótbolta á Íslandi!