Bókun stjórnar KSÍ um úrræði sem Alþingi hefur samþykkt
Stjórn KSÍ fundaði 2. apríl síðastliðinn og ræddi m.a. um ýmis mál tengd COVID-19, æfingabann, fjármál félaga og fleira. Í framhaldi af umræðum samþykkti stjórn KSÍ eftirfarandi bókun:
Formaður KSÍ fór yfir þau úrræði sem Alþingi hefur samþykkt og geta nýst íþróttahreyfingunni. Stjórnin leggur áherslu á eftirfarandi:
- Mikilvægt er að úrræði varðandi skert hlutfall starfa nýtist iðkendum og starfsfólki félaga.
- Knattspyrnuhreyfingin leggur áherslu á að tillaga skattahóps ríkisins, þar sem fjallað er um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna mannvirkjaframkvæmda og skattafrádrátt stuðningsfólks hreyfingarinnar, verði gerðar að varanlegum úrræðum.
- Mikilvægt er að tekið verði fullt tillit til íþróttahreyfingarinnar við úthlutun fjármuna sem ætlað er að mæta þeim áföllum sem dynja nú á hreyfingunni. Hafa verður í huga mikilvægi unglingastarfs félaganna og vinnu þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem leggja hreyfingunni lið. Fjárhagslega sterk íþróttahreyfing er traustur vettvangur til öflugrar viðspyrnu og því er það góð ráðstöfun fjármuna að mæta vanda íþróttafélaganna með öflugu framlagi.
- Stjórn KSÍ skorar á sveitarfélögin í landinu að grípa til öflugra aðgerða og undirbúa nú þegar og styðja íþróttafélögin í að koma starfi sínu af stað á ný þegar það verður mögulegt.
Stjórn KSÍ færir stjórnum knattspyrnufélaganna þakkir fyrir snör viðbrögð á erfiðum tímum og hvetur þær áfram til dáða þannig að knattspyrnan á Íslandi komi sterkari en fyrr til leiks þegar óvissutímar eru að baki.
Smellið hér til að skoða fundargerðina
Mynd með grein: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net.