Landsdómarar verða tilbúnir þegar mótið hefst
Þrátt fyrir samkomubann gera íþróttamenn allt hvað þeir geta til að halda sér í sem bestu formi og vera tilbúnir í slaginn þegar hægt verður að hefja keppnistímabilið. Knattspyrnudómarar eru þar engin undantekning. Landsdómarahópur KSÍ hefur t.a.m. æft vel í fjarþjálfun í samkomubanninu, hver í sínu lagi undir fjar-stjórn Fannars Karvels þrekþjálfara og hópurinn er vel innstilltur inn á það að vera klár þegar boltinn fer að rúlla aftur. Allir dómararnir eru með púlsklukkur sem þrekþjálfari hefur aðgang að og getur séð hvernig hver og einn er að æfa.
Samskipti við hópinn og innan hans hafa einnig verið regluleg og nefna má að Í síðustu viku tók hópurinn próf í knattspyrnulögunum og í þessari viku var fjarfundur á netinu þar sem farið var yfir valdar klippur úr leikjum. Þá hafa dómararnir bein samskipti sín á milli. hvetja hvern annan til dáða og deila jafnvel tölum af æfingu dagsins.
Mynd: Daníel Ingi Þórisson landsdómari deilir tölum af æfingu dagsins.