Áfram Ísland! - Eitt myndband á dag
Eins og kynnt var nýlega keyrði KSÍ í gang verkefni sem kallast "Áfram Ísland!" og gengur út á að hvetja þjóðina og iðkendur til dáða, til að halda áfram að æfa daglega (með eða án bolta), þrátt fyrir þær takmarkanir sem eru tilkomnar vegna samkomubanns í tengslum við heimsfaraldur COVID-19.
Í Áfram Ísland! eru birt tvenns konar myndbönd á samfélagsmiðlum KSÍ. Annars vegar myndbönd úr Tækniskóla KSÍ með einföldum æfingum sem krakkar geta gert utan skipulagðra æfinga hjá sínum félögum - ein og sér eða með vinum sínum og vinkonum. Hins vegar myndbönd með hvatningu frá landsliðsfólki til iðkenda um að halda áfram að hreyfa sig og æfa með reglulegum hætti, og til að viðhalda öllu því sem til þarf og vera tilbúin í slaginn þegar æfingar og keppni hefjast að nýju.
Myndböndin eru birt daglega á Instagram og Facebook síðum KSÍ, en einnig er hægt að finna þau öll á Youtube-síðu KSÍ. Smellið hér að neðan til að fara á samfélagsmiðla KSÍ.
KSÍ vill jafnframt hvetja sína fylgjendur til að leita uppi sín félög á samfélagsmiðlum og kynna sér þær æfingar sem þar eru í boði. Mörg aðildarfélög KSÍ eru að keyra sams konar eða svipuð verkefni af miklum myndarskap og eiga hrós skilið.