• mán. 30. mar. 2020
  • Mótamál
  • COVID-19

Frá mótanefnd KSÍ: Upplýsingar um stöðu mála

Mótanefnd KSÍ sendi í dag (30. mars) tölvupóst til aðildarfélaga KSÍ til upplýsingar um stöðu mála varðandi upphaf knattspyrnumótanna 2020.

Erindi mótanefndar KSÍ til aðildarfélaga:

"Eins og fram kom í skilaboðum sem við sendum frá okkur 20. mars sl. þá reynum við að halda ykkur (aðildarfélögum KSÍ) upplýstum um stöðu mála varðandi upphaf knattspyrnumótanna 2020.

Þar sem enn ríkir mikil óvissa með framhaldið á samkomubanninu er ekki hægt að gefa út nákvæma dagsetningu á því hvenær keppni hefst í einstökum mótum. KSÍ reynir að undirbúa sig eins vel og mögulegt er til að vera sem best tilbúið þegar íslensk yfirvöld heimila keppni að nýju.

UEFA fundar nk. miðvikudag. Vonandi skýrist þá hvort landsleikir fari fram í júní eða ekki og hvort Evrópukeppnir íslenskra félagsliða hefjist 7. júlí líkt og áformað var. Mótanefnd KSÍ fundar í vikunni til að fara yfir stöðu mála og mun meta framhaldið í ljósi væntanlegra upplýsinga frá UEFA.

Við biðjum félög um að senda okkur upplýsingar um breyttar forsendur sem hafa áhrif á framhald mótanna. Hér er t.d. átt við breyttar skráningar, utanferðir yngri flokka, opin mót og aðra viðburði sem áður hafði verið tilkynnt um til KSÍ og hafa breyst.

Meðan þetta ástand varir biðjum við ykkur um að fara varlega og fylgja leiðbeiningum yfirvalda vegna COVID-19."

------

Mynd með grein: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net