Frekari tilmæli birt á föstudag
Heilbrigðisyfirvöld og ÍSÍ hafa upplýst KSÍ að birt verði frekari tilmæli fyrir æfingar og keppni íþróttafélaga og -iðkenda á föstudag. KSÍ hefur fylgst vel með stöðunni síðustu vikur og mánuði, fylgt tilmælum ÍSÍ og heilbrigðisyfirvalda og upplýst knattspyrnuhreyfinguna reglulega um þróun mála með því að koma á framfæri mikilvægum skilaboðum frá fyrrgreindum aðilum.
Stjórn KSÍ ákvað á fundi sínum föstudaginn 13. mars síðastliðinn að fresta öllum leikjum, landsliðsæfingum og tengdum viðburðum á meðan samkomubann er í gildi. Laugardaginn 14. mars birti KSÍ ýmsar mikilvægar upplýsingar frá ÍSÍ um COVID-19, og sunnudagskvöldið 15. mars birti KSÍ síðan mikilvæg skilaboð frá ÍSÍ um íþróttastarfið í samkomubanni, þar sem m.a. komu fram tilmæli til íþróttafélaga að gera ekki ráð fyrir íþróttastarfi yngri iðkenda í vikunni sem nú stendur yfir, og jafnframt komu þar fram tilmæli varðandi íþróttaiðkun fullorðinna og ítrekað að ekki ætti að gefa neinn afslátt af þeim kröfum sem yfirvöld hafi sett fram.
Sem fyrr segir eru frekari tilmæli ÍSÍ og heilbrigðisyfirvalda væntanleg á föstudag og verður þeim komið á framfæri við knattspyrnuhreyfinguna eins fljótt og mögulegt er.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ:
„KSÍ leggur áherslu á mikilvægi þess að knattspyrnuhreyfingin sýni samfélagslega ábyrgð, fylgi tilmælum heilbrigðisyfirvalda og leggi sitt af mörkum til að sporna við útbreiðslu veirunnar. Aðildarfélög KSÍ hafa á að skipa öflugum og vel menntuðum hópi þjálfara sem hafa getu og þekkingu til að útfæra æfingar allra flokka með hliðsjón af þeim tilmælum sem ÍSÍ og heilbrigðisyfirvöld munu leggja fram. KSÍ hvetur félögin til að virkja þessa þekkingu enn frekar og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að halda starfinu gangandi innan fyrrgreindra tilmæla. Ég vil þakka fulltrúum knattspyrnuhreyfingarinnar fyrir að sýna jákvæðni og þolinmæði á þessum óvissutímum. Aðildarfélög KSÍ eru mörg og ólík, og iðkendur á ýmsum aldri leika knattspyrnu á ólíkum forsendum. Taka þarf tillit til allrar hreyfingarinnar við ákvarðanatöku og vanda til verks. Það er mikilvægt nú sem fyrr að sýna styrk, halda ró og hafa úthald. Áfram Ísland!“
Knattspyrnuhreyfingin og COVID-19
Mynd með grein: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net