Umspilsleikir í júní - EM frestað um eitt ár
Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) fundaði í dag, þriðjudag, með fulltrúum allra aðildarlanda sinna, auk fulltrúa evrópskra félagsliða og deildarkeppna og annarra hagsmunaaðila, um stöðu evrópskrar knattspyrnu knattspyrnu í ljósi þess heimsfaraldurs sem nú geisar. Niðurstöður fundarins eru listaðar upp hér að neðan. Í kjölfar þessa fundar mun KSÍ fara yfir stöðuna gagnvart innlendu mótahaldi. Stjórn KSÍ kemur saman fimmtudaginn 19. mars.
A landslið karla
Öllum leikjum A landsliða karla sem fara áttu fram dagana 23.-31. mars næstkomandi hefur verið frestað, og áætlað er að þeir fari fram í byrjun júní. Þessi frestun nær til fyrirhugaðs umspilsleiks íslenska A landsliðsins gegn Rúmeníu um mögulegt sæti í lokakeppni EM, sem fara átti fram fimmtudaginn 26. mars á Laugardalsvelli, og annarra umspilsleikja innan sömu dagsetninga. Miðakaupendum stendur til boða að halda miðunum, eða fá þá endurgreidda. Frekari upplýsingar verða sendar til miðakaupenda með tölvupósti.
Úrslitakeppni EM A landsliða karla hefur verið frestað um eitt ár og fer keppnin fram sumarið 2021 frá 11. júní til 11. júlí. Engar breytingar eru fyrirhugaðar á fyrirkomulagi úrslitakeppninnar.
A landslið kvenna
Leikjum A landsliða kvenna sem fara áttu fram í apríl hefur verið frestað og nýjar dagsetningar verða tilkynntar síðar, ásamt frekari breytingum á leikjadagatali A landsliða kvenna. Þessi ákvörðun nær til apríl-leikja íslenska A landsliðsins í undankeppni EM, útileikja gegn Ungverjalandi og Slóvakíu og annarra leikja í sömu keppni, sem fara því ekki fram í apríl.
Úrslitakeppni EM kvenna 2021 verður færð á nýjar dagsetningar, sem verða tilkynntar síðar.
U21 landslið karla
Leikjum U21 landsliða karla sem fara áttu fram í mars hefur verið frestað og nýjar dagsetningar verða tilkynntar síðar. Þessi ákvörðun nær til mars-leikja íslenska U21 landsliðsins í undankeppni EM, útileikja gegn Írlandi og Armeníu og annarra leikja í sömu keppni, sem fara því ekki fram í mars.
Úrslitakeppni EM U21 landsliða karla verður færð á nýjar dagsetningar, sem verða tilkynntar síðar.
U17 og U19 landslið karla og kvenna
Milliriðlum U17 og U19 landsliða karla og kvenna, sem fara áttu fram á næstu vikum og mánuðum og hafði þegar verið frestað, verða fundnar nýjar dagsetningar eða þeim aflýst.
Evrópukeppnir félagsliða
Beðið er frekari upplýsinga frá UEFA um hugsanlegar breytingar á fyrirkomulagi forkeppni Evrópukeppna félagsliða.
Mynd: Guðni Bergsson formaður KSÍ og Klara Bjartmarz framkvemdastjóri KSÍ á fundinum.