• þri. 10. mar. 2020
  • Fræðsla

Fyrstu vinnulotu í UEFA CFM náminu lokið

Í liðinni viku fór fram fyrsta vinnulotan af þremur í UEFA CFM náminu sem nú er haldið í fyrsta sinn hjá KSÍ. Í þessari fyrstu vinnulotu var fjallað um skipulag og uppbyggingu knattspyrnuhreyfingarinnar á heimsvísu og í Evrópu sérstaklega, um leyfiskerfi UEFA og reglur um fjárhagslega háttvísi (Financial Fair Play), um styrkjakerfi UEFA (HatTrick programme) og um stjórnun og stefnumörkun knattspyrnusambanda og knattspyrnufélaga.

UEFA CFM (UEFA Certificate in Football Management) er stjórnunarnám á vegum Knattspyrnusambands Evrópu fyrir einstaklinga sem starfa í knattspyrnuhreyfingunni eða tengjast henni með beinum hætti. Námið er á háskólastigi og hefur verið skipulagt af UEFA síðan árið 2010 í samstarfi við svissnesku námsstofnunina IDHEAP (The Swiss Graduate School of Public Administration, háskólinn í Lausanne).
Þátttakendur í UEFA CFM geta verið allt að 30 (að hámarki 20 frá Íslandi og að hámarki 10 erlendis frá).  Auk íslenskra nemenda koma þátttakendur frá Skotlandi, Hvíta-Rússlandi, Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð og Noregi.

Námið er að mestu rafrænt og fer allt fram á ensku (námsgögn, verkefni og fyrirlestrar). Rafræni hlutinn (e-learning) er í 6 lotum (modules), og haldnar verða 3 vinnulotur (face-to-face seminars) í höfuðstöðvum KSÍ 5. og 6. mars, 22. og 23. júlí og loks 19. og 20. nóvember.

Kennarar og fyrirlesarar eru tilnefndir af UEFA/IDHEAP og hafa allir mikla reynslu af því að starfa í alþjóðlegu umhverfi knattspyrnuhreyfingarinnar – hjá knattspyrnusamböndum, knattspyrnufélögum, og fyrirtækjum eða stofnunum með sterka tengingu við knattspyrnu. Náminu lýkur með útskrift í nóvember 2020 að undangengnum skilum á tveimur skriflegum verkefnum og munnlegu lokaprófi.