U19 kvenna skoraði sjö gegn Ítalíu
U19 landslið kvenna vann í dag, laugardag, 7-1 sigur gegn Ítalíu í vináttuleik sem fram fór á La Manga á Spáni. Eins og tölurnar gefa til kynna voru yfirburðir íslenska liðsins miklir í leiknum og sigurinn öruggur.
Karen María Sigurgeirsdóttir skoraði fyrstu tvö mörkin snemma leiks og reyndust það einu mörk fyrri hálfleiks. Í síðari hálfleik bættu Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, Barbára Sól Gísladóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (2) og Linda Líf Boama við mörkum, og ítalska liðið náði að skora eitt mark.
Þetta var annar leikur íslenska liðsins í þessu verkefni, en 4-1 sigur vannst á Sviss í fyrsta leik. Síðasti leikurinn er gegn Þýskalandi á mánudag.