Samningur undirritaður um Mjólkurbikarinn 2020
Fulltrúar Mjólkursamsölunnar, Sýnar og KSÍ undirrituðu samstarfssamning um Mjólkurbikarinn til næstu tveggja ára í höfuðstöðvum KSÍ.
Það voru þeir Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, og Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, sem undirrituðu samninginn.
Þess má geta að Bikarkeppni meistaraflokks karla er 60 ára á þessu ári.
Mjólkurbikarinn sneri aftur fyrir keppnistímabilið 2018 en Bikarkeppni KSÍ bar einmitt nafn Mjólkurbikarsins árin 1986 til 1996. Mjólkurbikar karla hefst 8. apríl næstkomandi með níu leikjum, en alls verða leiknir tæplega 50 leikir í fyrstu tveimur umferðum Mjólkurbikars karla áður en dregið verður í 32-liða úrslit þann 20. apríl.
Mjólkurbikar kvenna hefst 29. apríl með þremur leikjum, sama dag og dregið verður í 16-liða úrslitin karlamegin. Ekki hefur verið staðfest hvenær dregið verður í 16-liða úrslit keppninnar, en líklega verður það 13. maí.
Úrslitaleikirnir fara að venju fram á Laugardalsvelli – úrslitaleikur Mjólkurbikars kvenna þann 28. ágúst og úrslitaleikur Mjólkurbikars karla þann 2. október.