Landsliðið í PES fyrir undankeppni eEURO 2020 tilkynnt
Íslenska landsliðið í PES í eEURO 2020 hefur verið tilkynnt, en liðið hefur keppni í undankeppni mótsins í mars.
Liðið samanstendur af þeim Aroni Ívarssyni, KR, Jóhanni Ólafi Jóhannssyni, FH, og Aroni Þormari Lárussyni, Fylki.
Ísland er í riðli með Rússlandi, Póllandi, Austurríki og Ísrael í undankeppni eEURO 2020 og fer riðillinn fram í mars.
Við ræddum aðeins við Aron Ívarsson, fyrirliða liðsins, um verkefnið sem framundan er.
Hvernig er tilfinningin að vera í fyrsta landsliðshóp Íslands í eFótbolta?
Það hefur verið langþráður draumur að klæðast íslenskri landsliðstreyju, og þegar ég fékk boð um að taka þátt í evrópumóti í PES ætlaði ég varla að trúa því. Ég á aldrei eftir að gleyma stoltinu og kvíðanum sem fylgdi þegar ég tók fyrstu skrefin í skrifstofu KSÍ, og beðinn um að setja á mig treyju fyrir myndartöku. Ég hef spilað Pro Evolution Soccer (PES) í meira en 20 ár, þá hét hann International Soccer Pro Evolution, en að taka þátt í Evrópumóti fyrir hönd Ísland er eitthvað sem ég hafði aldrei hugsað mér. En hér er ég í dag, tilbúinn ásamt liðsfélögum mínum að koma eFótbolta Íslands á kortið.
Hvernig líst þér á liðin sem þið eruð að fara að mæta í undankeppninni?
Við lentum í gífurlega erfiðum riðli. Pólland og Rússland eru með stórt samfélag af spilurum og eru tvær af fremstu þjóðum í þessari keppni. Austurríki eru komnir langt í rafíþróttaheiminum og tefla alltaf sterku liði sama í hvaða leik. Við vitum ekki mikið um Ísrael, en ætlum ekki að vanmeta þá þrátt fyrir það. Hins vegar teljum við það jákvætt að fá svona góða samkeppni í okkar fyrstu keppni. Við eigum möguleika að vera vanmetnir og koma á óvart þar sem ekkert efni er hægt að finna um leiksskipulag og leikaðferðir sem við beitum. Þetta verður erfitt, en gífurleg reynsla fyrir landsliðið og mikið hægt að læra í þessari frumraun okkar.
Búist þið við því að spila einhverja æfingaleiki áður en undankeppnin hefst?
Við höfum fengið formlegt boð um æfingaleik frá Búlgaríu og erum við að reyna að finna dagsetningu sem hentar báðum aðilum í næstu viku. Búlgaría er mjög framarlega í PES heiminum, en þar er PES vinsælli en FIFA leikurinn. Við búumst við erfiðum leikjum, en við munum spila með okkar landsliðum í leiknum og Ísland er nokkuð betra en landslið Búlgaríu. Við erum í góðu sambandi við samfélagið þar, en þjálfari okkar Evaldas Palikevicius, hefur tekið þátt í deildum með spilurum frá Búlgaríu. Það má búast við leiknum næsta mánudag eða þriðjudag, einhvern tímann á milli 18:00 og 21:00. Fjölmiðlar í Búlgaríu hafa sýnt mikinn áhuga á þessum atburði og megum við búast við að hann verði sýndur í beinni í Búlgaríu. Við höfum einnig verið í sambandi við Litháen og Serbíu, en ekkert slegið niður eins og er.
Leikirnir í undankeppninni
9. mars
Ísland vs. Rússland kl. 16:00
Austurríki vs. Ísland kl. 18:00
Ísland vs. Pólland kl. 19:00
Ísland vs. Ísrael kl. 20:00
23. mars
Rússland vs. Ísland kl. 16:00
Ísland vs. Austurríki kl. 18:00
Pólland vs. Ísland kl. 19:00
Ísrael vs. Ísland kl. 20:00