Lúðvík S. Georgsson hlýtur Heiðurskross KSÍ
Lúðvíki S. Georgssyni var færður Heiðurskross KSÍ á 74. ársþingi sambandsins.
Líf Lúðvíks S. Georgssonar hefur verið samofið knattspyrnunni og knattspyrnuhreyfingunni frá unga aldri. Hann lék knattspyrnu með yngri flokkum KR og síðar með meistaraflokki Stjörnunnar. Lúðvík sat í stjórn knattspyrnudeildar KR frá 1980 til 1995, lengst af sem ritari og síðar formaður, og sat hann jafnframt í stjórn efstudeildarfélaga um skeið, m.a. sem formaður.
Lúðvík sat í stjórn KSÍ frá árinu 1996 til 2014, m.a. sem ritari stjórnar og varaformaður, en hætti í stjórn að loknu ársþingi KSÍ 2014, og að loknu því þingi var hann sæmdur gullmerki KSÍ og heiðurskross ÍSÍ. Áfram starfaði Lúðvík þó í nefndum og ráðum á vegum KSÍ, eins og hann hafði gert alla tíð. Nefna má sérstaklega mikla vinnu og nefndarstörf í tengslum við leikmannasamninga og félagaskipti, mannvirkjamál, og leyfiskerfi KSÍ, en Lúðvík hefur gegnt formennsku í leyfisráði frá innleiðingu leyfiskerfisins árið 2003 og sinnt því verki af miklum krafti, auk þess að vera meðlimur í leyfisráði UEFA frá árinu 2006.
Knattspyrnuhreyfingin færi Lúðvík miklar og verðskuldaðar þakkir fyrir hans mikilvægu störf í þágu íslenskrar knattspyrnu.