Skýrsla starfshóps um Pepsi Max deild karla og fjölgun leikja
Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samþykkt var að skipa hópinn á stjórnarfundi KSÍ þann 12. desember 2019, en hlutverk hans var að leggja mat á þá kosti sem nefndir hafa verið um mögulegar útfærslur á breyttu keppnisfyrirkomulagi Pepsi Max deildar karla.
Hópinn skipuðu:
Frá aðildarfélögum: Börkur Edvardsson (Valur), Haraldur Haraldsson (Víkingur/ÍTF/Stjórn KSÍ), Orri Hlöðversson (Breiðablik) og Þórir Hákonarson (Þróttur/ÍTF)
Frá KSÍ: Björn Friðþjófsson og Valgeir Sigurðsson
Frá fjölmiðlum: Tómas Þór Þórðarsson (form.Samtaka íþróttafréttamanna)
Niðurstaða
Að breyta keppnisfyrirkomulagi í efstu deildum Íslandsmótsins í knattspyrnu þarf að gera að vandlega athuguðu máli. Ná þarf yfir allar forsendur sem liggja til grundvallar þegar ákvörðun er tekin, sama hvaða leið er valin. Í vinnu starfshópsins kom fljótlega í ljós að leggja þurfti í gríðarlega mikla og tímafreka vinnu til að ná yfir öll þau fjölmörgu atriði sem þarf að hafa í huga við að skoða ólíkar útfærslur. Á þeim tíma sem hópurinn hafði til umráða náðist engan vegin að kanna þau nægilega vel.
Það er mat starfshópsins að umræðan innan hreyfingarinnar nú, hvort heldur sé á milli félaga og innan einstakra félaga, sé of skammt á veg komin til þess að hægt sé að ná fram niðurstöðu á þessum tímapunkti.
Lagt er til að starfshópur starfi áfram og fái til þess tíma fram að formannafundi haustið 2020.
Verkefni hans verði að afla frekari upplýsinga um þær leiðir sem færar þykja og kynna aðildarfélögum eigi síðar en haustið 2020. Hann hefði heimild til að kalla til fleiri aðila, hvort heldur sem er frá aðildarfélögunum eða öðrum hagsmunaaðilum.
Breyting á mótahaldi þarf að hafa víðan stuðning svo breytingin nái fram að ganga og takist vel í framkvæmt. Skapa þarf því vettvang til að umræðan haldi áfram með það að markmiði að á ársþinginu 2021 náist sátt um tillögu um breytt fyrirkomulag sem tæki gildi keppnistímabilið 2022 í tengslum við nýja samninga varðandi markaðs – og sjónvarpsréttindi.
Hægt er að lesa skýrslu starfshópsins hér að neðan