Átak til að vekja athygli á stöðu litblindra
Vissir þú að 1 af hverjum 12 körlum er litblindur? Vissir þú að 1 af hverjum 200 konum er litblind?
Litblinda getur haft áhrif á alla sem tengjast knattspyrnu - áhorfendur, leikmenn, þjálfara, dómara og aðra starfsmenn í kringum leikinn.
KSÍ hefur ákveðið að ráðast í átak sem ætlað er að vekja athygli á stöðu litblindra þátttakenda í knattspyrnu og því hvaða áhrif það getur haft ef ekki er tekið tillit til þeirra í starfinu og skipulagningu þess, t.d. á æfingum og í leikjum. Lítil skref sem hægt er að taka geta haft stór áhrif á getu og ánægju litblindra leikmanna, þjálfara, dómara, stuðningsmanna og annarra af því að iðka eða fylgjast með knattspyrnu.
Markmiðið með verkefninu er að hvetja alla hagsmunaaðila til þess að taka tillit til litblindra þegar ákvörðun er tekin um t.d. liti á keilum og vestum til notkunar á æfingum, sem og keppnisbúningum liða í leikjum. Unnin verða myndbönd með viðtölum við litblinda þátttakendur í knattspyrnu, og með grafík og öðrum upplýsingum til skýringar á ýmsum áskorunum sem litblindir glíma við. Áætlað er að hefja birtingu á myndböndunum á miðlum KSÍ í marsmánuði.