Íslensk knattspyrna 2019 komin út
Árbók knattspyrnunnar á Íslandi, Íslensk knattspyrna 2019, er komin út og að þessu sinni hjá nýjum útgefanda en Sögur útgáfa hefur tekið við henni af Bókaútgáfunni Tindi sem hafði verið með bækurnar frá árinu 2003. Víðir Sigurðsson skrifar bókina eins og hann hefur gert samfleytt frá árinu 1982.
Í bókinni er að vanda fjallað um allt sem gerðist í íslenskum fótbolta á árinu 2019. Ítarlega um hverja deild Íslandsmótsins fyrir sig, um alla landsleiki ársins, Evrópuleiki, bikarkeppnina, yngri flokkana, atvinnumennina erlendis og fjölmargt fleira.
Aðalviðtöl bókarinnar í ár eru við Óskar Örn Hauksson úr KR og Elínu Mettu Jensen úr Val. Þá skrifa sérfræðingarnir Hörður Magnússon og Edda Garðarsdóttir pistla um íslenska fótboltann á árinu.
Nýtt í bókinni er samvinna við Stöð 2 Sport um birtingu myndefnis frá Pepsi Max-deildum karla og kvenna en með því að skanna QR-kóða sem eru víða í bókinni má skoða mörk, tilþrif, viðtöl og fleira áhugavert frá Íslandsmótinu 2019.
Bókin er 272 blaðsíður í stóru broti og skreytt með um 380 myndum úr leikjum, af liðum og leikmönnum. Meðal annars eru liðsmyndir af öllum liðum efstu deilda karla og kvenna ásamt öllum liðum sem fóru upp um deildir og meistaraliðum yngri flokkanna.