Árni Þ. Þorgrímsson látinn
Árni Þ. Þorgrímsson, fyrrum varaformaður KSÍ, er látinn 88 ára að aldri.
Árni var fæddur í Keflavík 6. ágúst 1931, en hann hóf ungur afskipti af íþróttum og á árunum frá 1940 til 1950 keppti hann í knattspyrnu með Ungmennafélagi Keflavíkur. Hann sat í stjórnum og ráðum UMFK og ÍBK um margra ára skeið, lengst af sem formaður og gjaldkeri Knattspyrnuráðs ÍBK, eða frá 1968 til ársins 1977.Árni sat í stjórn KSÍ árin 1974 til 1984 og var varaformaður stjórnar um tíma. Hann gengdi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir sambandið, var meðal annars ritari, formaður mótanefndar, formaður landsliðsnefndar, formaður kvennanefndar og formaður dómaranefndar.
Árni var sæmdur gullmerki ÍSÍ á fimmtugsafmæli sínu árið 1981 og gullmerki KSÍ árið árið 1984.
KSÍ kveður fallinn félaga og sendir innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu og ástvina.