U19 kvenna - 3-0 sigur gegn Svíþjóð
Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
U19 ára landslið kvenna vann 3-0 sigur gegn Svíþjóð, en það voru Hildur Þóra Hákonardóttir, Linda Líf Boama og Karen María Sigurgeirsdóttir sem skoruðu mörk Íslands.
Leikurinn var jafn til að byrja með og gekk báðum liðum illa að skapa sér opin færi. Fyrsta mark leiksins kom svo á 16. mínútu, en það var Hildur Þóra Hákonardóttir sem skoraði með skalla eftir hornspyrnu.
Aðeins sjö mínútum síðar var Ída Marín Hermannsdóttir nálægt því að koma boltanum í netið, en skot hennar fór í slánna, tvisvar, eftir að markvörður Svía náði að setja hendi í boltann. Tveimur mínútum síðar skoraði Linda Líf Boama annað mark leiksins eftir frábæra stungusendingu frá Clöru Sigurðardóttur.
Ísland stjórnaði leiknum á þessum tímapunkti og á 35. mínútu bætti Karen María Sigurgeirsdóttir við þriðja marki Íslands með frábæru skoti fyrir utan teig. Ekki voru skoruð fleiri mörk í fyrri hálfleik og staðan því 3-0 fyrir Íslandi þegar flautað var til hálfleiks.
Ísland gerði fjórar breytingar í hálfleik. Útaf fóru þær Barbára Sól Gísladóttir, Karen María Sigurgeirsdóttir, Clara Sigurðardóttir og Íris Una Þórðardóttir. Inn komu Hafrún Rakel Halldórsdóttir, Valgerður Ósk Valsdóttir, Helena Ósk Hálfdánardóttir og Ísabella Anna Húbertsdóttir.
Jafnræði var með liðunum í upphafi síðari hálfleiks og eftir nokkrar mínútur varði Cecilía Rán vel þegar sóknarmaður Svía komst einn í gegn.
Á 64. mínútu komu Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og Katla María Þórðardóttir inn á fyrir Birtu Georgsdóttur og Hildi Þóru Hákonardóttur. Fimm mínútum síðar komu Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir inn á, en útaf fóru Linda Líf Boama og Ída Marín Hermannsdóttir.
Stuttu síðar voru Svíar nálægt því að skora sitt fyrsta mark í leiknum, en tvisvar varði Cecilía Rán glæsilega í marki Íslands. Mínútu síðar var Hafrún Rakel nálægt því að skora fyrir Ísland, en skot hennar úr teignum var varið.
Bæði liðin sköpuðu sér færi það sem eftir lifði leiks, en hvorugu tókst að skora og endaði því leikurinn með 3-0 sigri Íslands.