Æfingar yngri landsliða KSÍ veturinn 2019-2020 hafnar
Æfingar yngri landsliða KSÍ veturinn 2019-2020 eru hafnar og fara þær fram í Skessunni, nýjasta knatthúsi landsins.
U16 ára landslið kvenna æfði í Skessunni miðvikudaginn 30. október og framundan eru æfingar annarra yngri landsliða.
Yngri landslið Íslands æfa nú í fyrsta skipti á virkum dögum og á skólatímum, sem er gert í samvinnu við skóla viðkomandi nemenda. Hvert lið kemur að meðaltali saman fjórum sinnum yfir veturinn, tvisvar á haustönn og tvisvar á vorönn.
Hver æfingatörn er þrír dagar og eru tveir möguleikar á æfingadögum.
1. Mánudagur (2 æfingar), þriðjudagur (2 æfingar) og miðvikudagur (morgunæfing).
2. Miðvikudagur (eftirmiðdagsæfing), fimmtudagur (2 æfingar) og föstudagur (2 æfingar).
Þetta þýðir að hvert lið kemur 4 sinnum saman yfir veturinn og æfir að meðaltali 18-20 sinnum saman. Á milli æfinga er hádegismatur og fundir eða fyrirlestrar.
Þessir æfingatímar gera landsliðsþjálfurunum kleift að eyða meiri tíma með okkar landsliðsfólki á allan hátt. Fleiri æfingar, fundir, fyrirlestrar o.s.frv.