KSÍ semur við Brandenburg
KSÍ hefur samið við auglýsingastofuna Brandenburg um stuðning við mótun, uppbyggingu og þróun á vörumerkjum sambandsins. Í kjölfar stefnumótunar og undangenginnar markaðsgreiningar hefur KSÍ ákveðið að ráðast í endurmörkun á sínum auðkennum.
Markmiðið er að styrkja vörumerki KSÍ og efla ásýnd sambandsins, auka erlenda tekjumöguleika og færa aukinn kraft í markaðsstarf tengt innlendum og erlendum verkefnum. Valdar voru þrjár auglýsingastofur til að koma með tillögur að breyttri vörumerkjastefnu og í kjölfarið var ákveðið að ganga til samstarfs við Brandenburg.
„Við hjá KSÍ erum mjög spennt fyrir því sem framundan er í vörumerkjamálum sambandsins. Búið er að vinna mikla greiningarvinnu og framundan eru áhugaverð verkefni sem gaman verður að vinna með Brandenburg,“ segir Stefán Sveinn Gunnarsson, sviðsstjóri markaðssviðs KSÍ.
„Árangur landsliðanna okkar undanfarið og sú heimsathygli sem við höfum notið krefst þess að við endurskoðum uppbyggingu okkar vörumerkja. Eins er gríðarlega mikilvægt fyrir félögin í landinu að knattspyrnan, sem heild, sinni sínum markaðsmálum af festu, enda samkeppni um þátttakendur í íþróttastarfi mikil, hvort sem er um að ræða leikmenn, aðstandendur eða sjálfboðaliða.“
„Þetta er að sjálfsögðu eitt mest spennandi vörumerkjaverkefni sem við höfum tekið að okkur og okkur líður dálítið eins og við höfum verið valin í landsliðshópinn. Á sama tíma gerum okkur fyllilega ljóst að um afar krefjandi verkefni er að ræða enda hafa allir sterkar skoðanir á starfsemi KSÍ, utan vallar sem innan. Þannig á það líka að vera, við eigum að vera stolt af KSÍ og því starfi sem þar fer fram. Við höfum veitt ráðgjöf og séð um hönnun í mörgum af stærstu vörumerkjaverkefnum síðustu missera og erum mjög spennt fyrir að fara í þessu vinnu með KSÍ,“ segir Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Brandenburgar.
Mynd / Brandenburg og KSÍ (frá vinstri): Hrafn Gunnarsson, Dóri Andrésson, Arndís Huld Hákonardóttir og Ragnar Gunnarsson frá Brandenburg. Guðni Bergsson, Klara Bjartmarz, Stefán Gunnarsson og Ómar Smárason frá KSÍ.