Náið samstarf þjálfara í yngri landsliðum
Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KSÍ leggur mikið upp úr samstarfi og samráði milli þjálfara landsliða, og hvetur þjálfara til að deila sinni reynslu og þekkingu hver með öðrum. Þjálfarar U19 og U17 landsliða vinna t.a.m. náið saman, og vinna í raun í pörum, þar sem aðalþjálfari U17 liðs er aðstoðarþjálfari í U19 liði, og öfugt. Samstarfið og samráðið nær þó lengra og má nefna tvö dæmi tengd verkefnum í október.
Jörundur Áki Sveinsson, sem er aðalþjálfari U17 landsliðs kvenna, er aðalþjálfara U15 landsliðs karla, Lúðvík Gunnarssyni, til aðstoðar í UEFA-móti sem fram fer um þessar mundir í Póllandi. Íslenska liðið leikur þar gegn heimamönnum, Rússum og Bandaríkjamönnum.
Þá tekur Jón Þór Hauksson, þjálfari A landsliðs kvenna, að sér afleysingar í U17 og U19 landsliðum karla. Davíð Snorri Jónasson þjálfari U17 landsliðs karla og aðstoðarþjálfari U19 liðsins, á von á fjölgun í fjölskyldunni á næstu dögum. Jón Þór leysir Davíð því af í undankeppni EM U17 karla sem nú stendur yfir í Skotlandi og verður þar Þorvaldi Örlygssyni aðstoðarþjálfara U17 karla til halds og trausts í lokaleiknum, auk þess sem Jón Þór mun aðstoða Þorvald í undankeppni EM U19 karla sem fram fer í Belgíu í nóvember, en Þorvaldur er aðalþjálfari U19 liðsins.