A kvenna - 0-4 tap gegn Frakklandi
Ísland tapaði 0-4 gegn Frakklandi, en leikið var í Nimes í Frakklandi.
Frakkland byrjaði leikinn frábærlega, hélt boltanum vel og sótti á vörn Íslands. Þessi pressa bar strax árangur á 3. mínútu þegar Eugenie le Sommer skoraði fyrsta mark leiksins.
Frakkar héldu áfram að vera með völdin á vellinum eftir markið. Þær sóttu nokkuð stíft og voru oft á tíðum nálægt því að koma sér í færi. Það var svo á 18. mínútu sem Sommer skoraði annað mark Frakka með skoti fyrir utan teig.
Ísland komst aðeins betur inn í leikinn í kringum miðjan fyrri hálfleik, en þó án þess að ná að skapa sér eitthvað að ráði. Sandra Sigurðardóttir varði vel í tvígang undir lok fyrri hálfleiks. Staðan 2-0 þegar flautað var til leikhlés.
Ísland gerði eina skiptingu í hálfleik. Guðný Árnadóttir kom þá inn á, en útaf fór Sif Atladóttir.
Frakkland byrjaði síðari hálfleikinn vel og á 50. mínútu áttu þær skot rétt yfir mark Íslands. Stuttu síðar varði Sandra vel í marki Íslands.
Fjórfjöld skipting var gerð hjá Íslandi þegar hálftími var eftir af leiknum. Inn á komu þær Sandra María Jessen, Svava Rós Guðmundsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir. Útaf fóru Elín Metta Jensen, Sara Björk Gunnarsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir og Hlín Eiríksdóttir.
Stuttu eftir skiptingarnar komst Berglind Björg í ágæta stöðu í teignum, en vörn Frakka komst fyrir sendingu hennar fyrir markið.
Fimm mínútum síðar skoruðu Frakkland þriðja mark sitt. Delphine Cascarino var þar að verki, en hún var mætt á fjærstöng eftir frábæra fyrirgjöf.
Á 72. mínútu kom Dagný Brynjarsdóttir inn á fyrir Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur.
Lítið var um færi það sem eftir lifði leiks, Frakkar héldu boltanum vel og gáfu Íslandi fá færi á sér. Það var svo Amel Majri sem skoraði fjórða mark Frakka á 86. mínútu og þar við sat. 0-4 tap staðreynd.
Ísland mætir næst Lettlandi á þriðjudag í Liepaja í undankeppni EM 2021.