UEFA CFM nám á Íslandi 2020
UEFA CFM (UEFA Certificate in Football Management) er stjórnunarnám á vegum Knattspyrnusambands Evrópu fyrir einstaklinga sem starfa í knattspyrnuhreyfingunni eða tengjast henni með beinum hætti. Námið er á háskólastigi og hefur verið skipulagt af UEFA síðan árið 2010 í samstarfi við svissnesku námsstofnunina IDHEAP (The Swiss Graduate School of Public Administration, háskólinn í Lausanne). KSÍ og UEFA munu bjóða upp á UEFA CFM á Íslandi á árinu 2020.
Þátttakendur geta verið allt að 30 (að hámarki 20 frá Íslandi og að hámarki 10 erlendis frá). Námið er að mestu rafrænt og fer allt fram á ensku (námsgögn, verkefni og fyrirlestrar). Rafræni hlutinn (e-learning) er í 6 lotum (modules), og haldnar verða 3 vinnustofur (face-to-face seminars) í höfuðstöðvum KSÍ í mars, júlí og nóvember, sem standa yfir í 2-3 daga hver. Kennarar og fyrirlesarar eru tilnefndir af UEFA/IDHEAP og hafa allir mikla reynslu af því að starfa í alþjóðlegu umhverfi knattspyrnuhreyfingarinnar – hjá knattspyrnusamböndum, knattspyrnufélögum, og fyrirtækjum eða stofnunum með sterka tengingu við knattspyrnu. Náminu lýkur með útskrift í nóvember 2020 að undangengnum skilum á tveimur skriflegum verkefnum og munnlegu lokaprófi.
Vakin er athygli á að UEFA CFM námið er umfangsmikið og skv. upplýsingum frá UEFA/IDHEAP má reikna með allt að 300 klukkustundum í yfirferð námsgagna, vinnslu verkefna og þátttöku í vinnustofum. Engar undanþágur eru gefnar á yfirferð námsgagna eða verkefnaskilum og skyldumæting er á allar þrjár vinnustofurnar. Við lok námsins, sem er viðurkennt af öllum háskólum í Evrópu, hefur nemandinn lokið 10 ECTS einingum.
Umsóknarglugginn er 1.-22. nóvember og niðurstaða umsókna mun liggja fyrir um miðjan desember. Sendið tölvupóst á Ómar Smárason hjá KSÍ (omar@ksi.is) til að fá sent umsóknareyðublað eða óska eftir frekari upplýsingum.