Ráðstefna á vegum FIFA í höfuðstöðvum KSÍ
Forsetar 11 knattspyrnusambanda í Austur Afríku sóttu ráðstefnu í vikunni í höfuðstöðvum KSÍ.
Ráðstefnan, sem er skipulögð af FIFA, var fyrir CECAFA, svæðissamband Austur Afríku. Markmið hennar er að koma á samskiptum um þróun knattspyrnunnar almennt, hvort sem það tengist yfirstjórnun eða þjálfunaraðferðum fyrir leikmenn og þjálfara. Á ráðstefnunni gafst þátttakendum tækifæri til að læra af KSÍ, ásamt því að deila þeirra reynslu með KSÍ.
Veron Mosengo Omba, fulltrúi FIFA, segir að Ísland hafi verið valið í ljósi smæðar þess og árangurs á undanförnum árum:
,,KSÍ er knattspyrnusamband í landi með aðeins um 330.000 íbúa. Veðrið hér gerir það að verkum að ekki er hægt að spila knattspyrnu úti allt árið, en samt hefur landið náð ótrúlegum árangri."
,,Það var áhugavert að sjá hvernig jafn lítið land og Ísland getur náð svona ótrúlegum árangri. Knattspyrnusambönd Austur Afríku, sem tóku þátt í ráðstefnunni á Íslandi, voru hrifin af skipulagi knattspyrnu á Íslandi í heild sinni."
Þáttakendur á fundinum komu frá 11 þjóðum í Austur Afríku. Forsetar knattspyrnusambanda Rúanda, Suður Súdan, Sómalíu, Erítreu, Tansaníu, Búrúndí, Djibútí, Kenýa, Úganda, Eþíópíu og Súdan komu á fundinn.
Nicholas Kithuku, forseti knattspyrnusambands Kenýa, segir að margt sé hægt að læra af íslenskri knattspyrnu:
,,Maður fyllist innblástri við það að sjá hvað KSÍ hefur gert og hversu hugmyndaríkt samband það er. Sérstaklega er áhugavert að sjá hversu margir taka þátt í hinum ýmsu þáttum knattspyrnunnar. Ísland er stór þjóð með fátt fólk. Það sem Knattspyrnusamband Kenýa tekur frá fundinum er að gera fleiru fólki kleift að taka þátt í knattspyrnunni og stækka grunn okkar fyrir árangur framtíðarinnar. Kærar þakkir fyrir allt."
Það er ljóst að það er mikil viðurkenning fyrir KSÍ að FIFA leiti til þess til að halda ráðstefnu sem þessa og miðla með öðrum hvernig starfið hér á landi fer fram.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, hafði þetta að segja um mikilvægi fundarins fyrir knattspyrnusambandið:
,,Það hefur verið mjög ánægjulegt og gefandi að taka á móti formönnum Afríkuríkjanna, ásamt fulltrúum FIFA, til þess að kynna þeim uppbyggingu okkar á íslenskum fótbolta. Má segja að þetta sé viðurkenning fyrir okkur að Ísland sé valið í þetta verkefni og endurspeglar það góða starf sem unnið er hér á landi og hefur vakið heimsathygli. Við eigum að reyna að láta gott af okkur leiða í þessum efnum, sem öðrum, ef við getum og við sjáum fyrir okkur framhald á verkefnum sem þessum.”