FIFA-ráðstefna 11 Afríkuþjóða
Dagana 17. og 18. september fer fram í höfuðstöðvum KSÍ á Laugardalsvelli FIFA-ráðstefna 11 Afríkuþjóða - FIFA Strategic Development Meeting. Ráðstefnan er hluti af "Forward" verkefni FIFA, sem miðar að því að styðja aðildarlönd FIFA í að þróa og styrkja sína starfsemi á ýmsum sviðum. Þátttakendur eru formenn knattspyrnusambanda Búrúndí, Djibútí, Eritreu, Eþíópíu, Kenía, Rúanda, Sómalíu, Suður-Súdan, Súdan, Tansaníu og Úganda, auk fulltrúa FIFA.
Ráðstefnan sem fram fer á Íslandi fjallar sérstaklega um uppbyggingu á starfsemi yngri flokka, menntun þjálfara á öllum stigum og fjölgun iðkenda og annarra þátttakenda í knattspyrnu. Fulltrúar KSÍ munu kynna uppbyggingu og skipulag íslenskrar knattspyrnu, hæfileikamótun, þjálfaramenntun, dómgæslu og skipulag yngri landsliða, auk þess sem hópurinn mun heimsækja aðildarfélag KSÍ, skoða knattspyrnuhöll og fylgjast með æfingu hjá félagsliði. Önnur dagskrá ráðstefnunnar er alfarið í höndum FIFA.