Andlát: Atli Eðvaldsson
Atli Eðvaldsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari og landsliðsfyrirliði er látinn. Atli lést mánudaginn 2. september, 62 ára að aldri, eftir hetjulega baráttu við krabbamein.
Atli lék á sínum tíma 70 landsleiki fyrir Ísland á árunum 1976 til 1991, marga þeirra sem fyrirliði, og skoraði 8 mörk. Jafnframt þjálfaði hann A-landslið karla frá 2000 til 2003.
Meistaraflokksferilinn hóf Atli með með Val árið 1974 og varð hann tvisvar Íslandsmeistari og þrisvar bikarmeistari með Valsmönnum áður en hann hélt til atvinnumennsku í Þýskalandi, þar sem hann lék við góðan orðstír um árabil, með viðkomu í Tyrklandi. Leikmannsferlinum lauk hann á Íslandi, fyrst með Val, þar sem hann varð bikarmeistari í fjórða sinn, og loks með KR, áður en þjálfaraferillinn hófst hjá HK, þar sem Atli var spilandi þjálfari. Við þjálfun starfaði Atli hjá ÍBV, Fylki og KR, þar sem hann m.a. leiddi KR-inga til Íslandsmeistaratitils og bikarmeistaratitils, áður en hann tók við sem þjálfari A landsliðs karla. Því starfi gegndi Atli árin 1999 til 2003. Atli þjálfaði síðar Þrótt, Val, Reyni Sandgerði, Aftureldingu, Kristianstad í Svíþjóð og loks Hamar.
KSÍ minnist fallins félaga með hlýhug og vottar fjölskyldu og aðstandendum samúð.