A kvenna - 1-0 sigur gegn Slóvakíu
Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland vann 1-0 sigur gegn Slóvakíu í undankeppni EM 2021. Það var Elín Metta Jensen sem skoraði mark Íslands í síðari hálfleik.
Ísland tók frumkvæðið í leiknum strax í byrjun hans, voru mun meira með boltann og settu oft á tíðum ágætis pressu á slóvakísku vörnina. Fyrsta færi liðsins kom eftir átta mínútur þegar Ingibjörg Sigurðardóttir átti ágætis skalla framhjá eftir hornspyrnu.
Aðeins tveimur mínútum síðar fékk Fanndís Friðriksdóttir boltann. Hún tók sprettinn upp kantinn, framhjá nokkrum mótherjum og kom boltanum fyrir markið. Þar var Svava Rós Guðmundsdóttir, en skot hennar fór framhjá. Mínútu síðar var það Fanndís sem var nálægt því að skora eftir góðan undirbúningu Ástu Eirar Árnadóttur, en Maria Korenciová varði vel.
Leikurinn róaðist töluvert eftir þetta. Ísland var mun meira með boltann á meðan Slóvakía lá til baka, en stelpunum tókst þó ekki að skapa sér nein færi af ráði. Þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum átti Fanndís fyrirgjöf á Dagnýju Brynjarsdóttur, en skalli hennar fór framhjá.
Staðan því markalaus í hálfleik.
Íslenska liðið hóf síðari hálfleikinn eins og þann fyrri og tók öll völdin á vellinum. Elín Metta Jensen átti fyrsta færið eftir um fimm mínútna leik þegar hún sneri af sér varnarmann við vítateigslínuna, en skot hennar fór beint á markvörð Slóvakíu.
Á 55. mínútu kom Hlín Eiríksdóttir inn á, en útaf fór Svava Rós Guðmundsdóttir. Sjö mínútum síðar var það Agla María Albertsdóttir sem kom inn á, en útaf fór Fanndís Friðriksdóttir.
Hlín var ekki lengi að láta að sér kveða, stuttu eftir að hún kom inn á átti hún gott skot rétt fyrir utan teig sem var frábærlega varið. Stuttu síðar tókst stelpunum síðan að taka forystuna. Glódís átti þá frábæra sendingu á Elínu Mettu. Hún fór framhjá varnarmanni Slóvakíu og setti boltann af öryggi í netið. Staðan orðin 1-0, sem var mjög verðskuldað.
Stelpurnar héldu uppi mikilli pressu á mark Slóvaka og var Dagný ekki langt frá því að tvöfalda forystu Íslands, en skalli hennar fór rétt framhjá. Tveimur mínútum síðar var Elín Metta nálægt því að skora annað mark sitt í leiknum. Agla María átti flotta aukaspyrnu utan af kanti en skota Elínar Mettu var vel varið.
Á 80. mínútu kom Berglind Björg Þorvaldsdóttir inn á, en útaf fór Dagný Brynjarsdóttir.
Slóvakar voru nálægt því að jafna á 86. mínútu, en skot Patricia Hmirova fór rétt framhjá marki Íslands.
Slóvakar settu af og til ágætis pressu á íslensku vörnina undir lokin án þess þó að takast að skora. Því var 1-0 sigur Íslands staðreynd.