Mögulegir næstu mótherjar íslensku liðanna í Evrópudeildinni
Dregið hefur verið í næstu umferð Evrópudeildar UEFA og er þannig ljóst hvaða liðum íslensku liðin geta mögulega mætt, komist þau í næstu umferð.
Valur lék í forkeppni Meistaradeildar UEFA gegn Maribor frá Slóveníu. Þar höfðu slóvensku meistararnir betur, sem þýddi þó að Valsmenn, sem landsmeistarar á Íslandi, færðust yfir í Evrópudeildina. Þar mæta þeir Ludogorets frá Búlgaríu og sigurliðið úr þeirri viðureign mætir annað hvort New Saints frá Wales eða danska liðinu FC Kaupmannahöfn. Fyrri leikur Vals og búlgarska liðsins fer fram á Origo-vellinum að Hlíðarenda á fimmtudag, og seinni leikurinn í Razgrad í Búlgaríu þann 1. ágúst.
Stjarnan, sem sló Levadia Tallinn frá Eistlandi út á dramatískan hátt, mætir spænska liðinu Espanyol í næstu umferð. Takist Stjörnunni að slá spænska liðið úr keppni verður mótherjinn í næstu umferð sigurvegarinn úr viðureign KÍ Klaksvík frá Færeyjum og svissneska liðsins FC Luzern. Fyrri leikur Stjörnunnar og Espanyol verður í Barcelona á fimmtudaginn í þessari viku, en seinni leikurinn á Samsung-vellinum í Garðabæ þann 1. ágúst.