• þri. 16. júl. 2019
  • Lög og reglugerðir
  • Ársþing

Heildarbreytingar á lögum KSÍ taka gildi

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Heildarbreytingar á lögum KSÍ, sem samþykktar voru á ársþingi KSÍ á þessu ári, hafa nú tekið gildi. Dreifibréf þar sem breytingarnar eru kynntar hefur verið sent á aðildarfélög KSÍ.

Á 73. ársþingi KSÍ voru samþykktar viðamiklar breytingar á lögum KSÍ. Um er að ræða breytingar sem byggja að mestu á vinnu tveggja starfshópa sem störfuðu á milli þinga 2017 og 2018 annars vegar og á milli þinga 2018 og 2019 hins vegar. Stjórn KSÍ samþykkti í kjölfarið að leggja fram tillögu að heildarbreytingum á lögum KSÍ á ársþingi KSÍ þann 9. febrúar 2019. Tillagan var samþykkt einróma.

Í samræmi við 46. grein laganna þá öðlast lögin gildi við samþykki þeirra á knattspyrnuþingi og að lokinni staðfestingu framkvæmdastjórnar ÍSÍ. Eftir yfirferð þá hefur framkvæmdastjórn ÍSÍ nú staðfest ný og breytt lög KSÍ með bréfi dags. 27. júní 2019. Lögin eru staðfest með því skilyrði að 14. gr. laganna verði breytt á ársþingi KSÍ 2020 á þá vegu að tilnefning formanns hagsmunasamtaka félaga í efstu deildum (Íslenskur toppfótbolti) í stjórn KSÍ verði ætíð staðfest af ársþingi KSÍ áður en viðkomandi tekur sæti í stjórninni. Mun stjórn KSÍ leggja fram breytingartillögu þess efnis á ársþingi KSÍ 2020.

Yfirlit yfir ný og breytt lög KSÍ